144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hans svör og þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls. Ég vil ítreka það sem ég sagði fyrr, af því að hæstv. ráðherra vitnaði í talsvert margar skýrslur og nefndir sem hafa starfað og mótað stefnu, stefnu Vísinda- og tækniráðs, ýmsa rýnihópa og sérfræðinga sem hafa komið að málum, að hvernig sem við snúum þeim teningi er niðurstaðan alltaf sú að hér, eins og hv. þingmaður sem talaði næstur á undan mér, Össur Skarphéðinsson, kom inn á, er unnið mjög gott starf þar sem við fáum mikið fyrir lítið, því að um leið eru framlögin langt undir því sem við viljum sjá, bæði þegar við berum okkur saman við OECD og líka þegar við berum okkur saman við hin Norðurlöndin.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni að hér væru framlög óbreytt árið 2015 frá því sem verið hefði, þ.e. 700 milljónir í aldarafmælissjóðinn. Það væri starfshópur að fara að skila af sér tillögum um framhaldið en þær þyrftu að miðast við stöðu ríkisfjármála. Ég vil þá heyra aðeins í hæstv. ráðherra, hver hans persónulega afstaða er, sem mennta- og menningarmálaráðherra. Hversu mikilvægt hann telur að við náum að standa við þau markmið sem hafa verið sett af fyrri starfshópum um að við náum framlögum til háskólastigsins á þetta stig? Eins og ég sagði áðan er þetta lykillinn að einhverju leyti að því að við getum tryggt áframhaldandi öflugt atvinnulíf og öflugt efnahagslíf, að við fjárfestum í innviðunum og innviðirnir eru fyrst og fremst rannsóknir og þekkingarsköpun. Það eru innviðirnir sem við eigum að vera að fjárfesta í til að skapa vöxt, til að skapa störf til framtíðar. Það er rétta leiðin fyrir okkur sem þjóð. Ég vil heyra afstöðu hæstv. ráðherra, svo fremi sem hann hafi aðgang að fjármunum, hvernig hann mundi vilja forgangsraða þeim fjármunum, hversu raunhæft hann telur að við náum þeim markmiðum (Forseti hringir.) sem voru sett og hvernig hann nákvæmlega hann mundi vilja forgangsraða þeim fjármunum.