144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa mikilvægu sögulegu upprifjun. Það er rétt að um það var rætt á sínum tíma af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar að málin yrðu kláruð með því lagafrumvarpi sem til stæði að leggja fyrir þingið. Héldu menn þá að með þessum náttúrupassa ætti að keyra alla mögulega gjaldtöku að íslenskum náttúruperlum undir einn og sama hattinn.

En nú kemur í ljós að hér er verið að festa í sessi réttinn til gjaldtöku og að áfram eiga landeigendur að fá tækifæri til að rukka fólk. Það gerist eftir að þeir aðilar sem um þessi mál fjalla kveða upp úr um að þetta stríði gegn lögum. Reyndar þurfti ég ekki að bíða eftir úrskurði þeirra, ég settist einfaldlega yfir lögin og las þau. Ég lærði að lesa fimm eða sex ára gamall og það er ekki flókið mál að komast að þeirri niðurstöðu að hér er um lögbrot að ræða. En lögum má náttúrlega breyta og þessi ríkisstjórn getur breytt landslögunum en hún getur ekki breytt þeim á þann veg að hún hafi af okkur almannaréttinn sem kveðið er á um í stjórnarskrá og öllum þeim grundvallarreglum sem við höfum byggt samfélag okkar á.