144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð og skýr svör. Hann svaraði spurningunni um gistináttagjaldið, en þá er lykilatriðið þar auðvitað eftirspurnaráhrifin. Er talað um verðteygni í því sambandi, hversu viðkvæmt það gjald er og hækkun þess eftir eftirspurn. Það er erfitt að meta það.

Mig langar að koma að annarri leið. Í ræðu sinni nefndi hv. þingmaður komugjöld og taldi að sú leið væri ekki útrædd og að ekki væru komin nægileg rök fyrir því að ekki væri hægt að fara þá leið. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að brugðist verði við áhrifum þess á innanlandsflugið?