144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda. Þegar ég ræddi um blandaða leið var ég ekki að útiloka náttúrupassann í einhverri mynd. Mér finnst hins vegar brýnt að skýra hvernig hann getur samrýmst almannaréttinum eins og ég kom inn á og finnst afskaplega mikilvægt að hann gangi ekki á hann. Eins þykist ég vita að við umfjöllun í nefnd muni koma betur fram hvernig framkvæmdin getur virkilega farið fram sem ég, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, á mjög erfitt með að sjá fyrir mér, fyrirgefðu, forseti, ef ég sletti, hina praktísku útfærslu. Ég trúi því að hægt sé að vinna með þetta frumvarp, mér heyrist í rauninni allir sem til máls hafa tekið, hversu gagnrýnir sem þeir eru, sammála markmiðinu í stórum dráttum og þess vegna hef ég trú á því að hægt sé að vinna þannig með frumvarpið að hægt sé að ná um það góðri sátt, bæði úti í þjóðfélaginu og hér innan þings.