144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til laga um náttúrupassa sem hæstv. ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, hefur lagt fram. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið til þingsins og til umræðu. Umræða er alltaf af hinu góða og sér í lagi í þessu máli þar sem mjög brýnt er að ná því markmiði sem að er stefnt og kemur vel fram í 1. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að verndun náttúru Íslands með nauðsynlegri uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða svo og að styðja við málefni er tengjast öryggismálum ferðamanna.“

Um þennan fyrri hluta 1. gr. frumvarpsins er ekki deilt. Það hefur komið mjög vel fram í umræðunni og það má kannski segja að allir séu sammála um markmiðin en að leiðin sé í besta falli umdeild og í versta falli ekki fullkomin.

Hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur í umræðunni farið mjög vel yfir helstu þætti frumvarpsins, innihald þess, kosti og galla og aðrar mögulegar leiðir og í raun opnað á gagnrýni og vangaveltur og þann möguleika að við náum í sameiningu þeirri leið sem þarf til að ná markmiðum frumvarpsins. Það er stóra myndin sem margir hv. þingmenn tala um í þessu frumvarpi og skiptir mestu máli og það hefur komið skýrt fram að allir eru sammála um hana. Útfærslan á þeirri hugmyndafræði er umdeild og það er mögulega mikilvægast af öllu að draga það vel fram en verður fróðlegt að bera þá gagnrýni sem komið hefur fram í umræðunni saman við þær umsagnir sem munu berast þegar málið fer í meðferð hjá hv. atvinnuveganefnd.

Ef við skoðum frumvarpið sjálft aðeins nánar kemur fram í greinargerð að til uppbyggingar, viðhalds og verndar vanti og þurfi rúmlega 1 milljarð árlega til að fjármagna bráðnauðsynlegar framkvæmdir og er víða orðið mjög brýnt að hefjast handa.

Ég met það svo að þessa fjárhæð þurfi að setja í samhengi við eðli og umfang atvinnugreinarinnar. Ferðaþjónustan er sérstök atvinnugrein að því leyti að hún er samtvinnuð fjölmörgum öðrum atvinnugreinum. Nýsköpunin í ferðaþjónustu verður fyrst og fremst til við slíka skörun við aðrar atvinnugreinar, til að mynda landbúnaðinn, sjávarútveginn og fiskveiðarnar, verslunina og menninguna svo eitthvað sé nefnt. Þannig er ferðahagkerfið í raun stærra að umfangi en skilgreind ferðaþjónustufyrirtæki, t.d. í formi fjölda starfa eða hvaða mælikvarða sem við kjósum að setja á atvinnugreinina, en það er stundum talað í því samhengi um bein eða óbein áhrif í efnahagslegu tilliti

Ferðamaðurinn sem sækir Ísland heim skilur eftir tekjur. Hann verslar við hin ýmsu fyrirtæki sem að því marki eru að hluta til ferðaþjónustufyrirtæki. Þegar ferðamaðurinn fer í matvöruverslun er sú verslun þá ferðaþjónustufyrirtæki? Já. Þegar ferðamaðurinn verslar við viðkomandi verslun skilgreinum við það að hluta til sem ferðaþjónustufyrirtæki, ef við styðjumst við alþjóðlegar skilgreiningar. Það sama á við um sundlaugarnar, almenningssamgöngutækin, veitingastaðina, fataverslanir og aðrar verslanir og þau vöru- og þjónustufyrirtæki sem ferðamaðurinn verslar við.

Það hefur verið bent á í umræðunni að þar innheimtist virðisaukaskattur sem rennur í ríkissjóð. Það má því vel færa rök fyrir því að nýta óbeina skattkerfið til uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum. Ég tel það hins vegar óhyggilegt. Rekstur ríkissjóðs er viðkvæmur og það er brýnt að fara í uppbyggingu og viðhald okkar helstu náttúruperlna og ég er ekki viss um að það væri vænlegt í þeirri forgangsröðun og samkeppni um fjármagn á fjárlögum. En kjarninn í þeirri vöru eða þjónustu sem myndar þá eiginlegu þjónustu eða vöru sem ferðamaðurinn sækist eftir og þarf óhjákvæmilega að kaupa ef ferðin til áfangastaðarins á að ganga upp, ferðin til landsins eða um landið, flutningsmátinn, gistingin, maturinn, afþreyingin, þetta eru svokallaðir kjarnaþættir í þeirri vöru og þjónustu sem við horfum í raun og veru til þegar við tölum um ferðaþjónustu.

Bæði margir hv. þingmenn og miðlar hafa rætt um upplifun ferðamannsins. Það kemur upp í hugann þegar ég fer yfir þann texta sem ég ritaði niður fyrir þessa ræðu að ágætisfræðimaður lýsti þjónustu svo að hún væri ekki neitt sem við misstum á fótinn á okkur. Þannig held ég að það sé með upplifunina og það útskýrir mögulega að hluta til flækjustigið sem við eigum við að etja þegar við fjöllum um útfærslu á því að afla tekna til uppbyggingar og viðhalds. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort náttúrupassinn muni hafa áhrif á þá ímynd, þá upplifun, þá vöru sem við erum að selja. Og hvaða áhrif hefur það á okkar eigin upplifun sem höfum þessa dýrð sem náttúran er nánast við dyrastafinn? Mun þetta fyrirkomulag, þessi leið, náttúrupassi, breyta því hvernig ferðamaðurinn upplifir náttúruna? Gjaldtaka verður í mínum huga að ríma við þá þjónustu sem gjaldtakan nær til, til að upplifun ferðamannsins breytist ekki og hún verði jafn eftirsóknarverð eða virðist meiri eftir heldur en áður. Þar má leita til leiðsagnar stefnumótunar. Slíka framtíðarsýn leitaði ég uppi meðal annars í ferðamálaáætlun 2011–2020 sem byggir á þingsályktunartillögu frá 2011. Þar kemur til dæmis fram að 2020 eigi íslensk ferðaþjónusta að verða arðbær mikilvæg atvinnugrein með áherslu á sérstöðu Íslands sem áfangastaðar þar sem hvatt er til samstarfs aðila, og þar á ég við fyrirtæki, sveitarfélög og ríkisábyrgð, við uppbyggingu, nýsköpun og vöruþróun. Hér eru lykilhugtökin sérstaða og samvinna. Það einkennir þessa atvinnugrein, sem er samansett úr mörgum ólíkum atvinnugreinum, að hún er algerlega háð því í allri markaðssetningu og stýringu, stjórnun að hinir ólíku aðilar komi saman og vinni saman og í þessu tilliti nái sátt um þá leið sem þarf til að byggja upp þá vöru sem við erum að bjóða.

Staða hæstv. ráðherra í því samhengi er býsna snúin. Þvert á þá fyrirætlan sem birtist í þessari stefnu hefur ráðherrann ekki fengið skýr skilaboð, ekki frá hagsmunaaðilum ferðaþjónustunnar, um það hvaða leið fer best saman við þá vöru sem við erum að selja eða teljum okkur vera að selja, það hafa í besta falli skilaboð verið skilaboð til ráðherra um það hvaða leið ferðaþjónustunni hugnast ekki. Þó var í samráðsferlinu fyrst um sinn, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, kallað eftir svipaðri leið og boðuð er í þessu frumvarpi, eða eins og fram kemur á bls. 6 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Samtök ferðaþjónustunnar ályktuðu á aðalfundi samtakanna 2013 að þau væru tilbúin til viðræðna við stjórnvöld um útgáfu náttúrupassa til fjármögnunar á framkvæmdum við ferðamannastaði samhliða lækkun eða afnámi annarra sértækra skatta á ferðaþjónustuna.“

Þarna er væntanlega verið að vísa til að afnema eigi gistináttaskattinn, það sé krafa hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, og er gert ráð fyrir í því í 10. gr. á bls. 3 í frumvarpinu þar sem segir að lög um gistináttaskatt eigi að falla úr gildi 1. september 2016.

Hæstv. ráðherra hefur nú sett málið í þann búning sem það er í hér og blásið til fundaherferðar og kynningar samhliða því og þannig opnað á umræðu og hugmyndir í þeim tilgangi að klára þá stóru mynd sem ég kom inn á í upphafi, klára þetta mál og fá alla aðila að borðinu sem er nauðsynlegt, eins og ég fór yfir áðan, vegna eðli atvinnugreinarinnar, setur fram heildstæða mynd eða eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í umræðunni, leggur fram tillögu sem má þróa og vinna úr. Ég lít svo á í 1. umr. að við séum að taka mjög mikilvæg skref í því. Í samanburðarskýrslu Íslandsstofu kemur fram meðal annars að Ísland sé langt á eftir samanburðarlöndum hvað varðar greiningu á ferðamönnum, enda held ég að fyrsta opinbera stefnumótunin hafi verið hér 1996. Síðan þá hefur verið stöðug fjölgun erlendra ferðamanna til landsins.

Það kemur fram í skýrslunni að helst vanti upp á að greina markhópinn, ferðamanninn, lykilmarkaði og eyðslumynstur. Ég tel að þetta skipti miklu máli. Það er áritun á vöruna, upplifunina, kjarnaþjónustuna, hvað hugsar ferðamaðurinn, hvernig metur hann vöruna, áfangastaðinn Ísland, með öllum sínum kostum og kynjum? Við þurfum að huga betur að því hvað áhrif leiðin sem birtist í þessu frumvarpi, náttúrupassinn, hefur á vöruna sem við erum að selja. Það kemur fram í skoðanakönnun MMR á vegum Ferðamálastofu að 80% þeirra sem sækja landið heim koma vegna náttúrunnar og frá því er greint í frumvarpinu. Ferðamenn svara því gjarnan að það eftirsóknarverðasta við Ísland sé að upplifa kyrrðina og ósnortna náttúru.

Það sama á við um innfædda ferðamenn, okkur sem ferðumst um landið. Við metum hvað mest að geta upplifað náttúruna óáreitt. Getur verið að eftirlits- og sektarkerfið sem boðað er í frumvarpinu geti haft áhrif á upplifun ferðamannsins og því sem hann raunverulega sækist eftir eða metur mest í upplifun sinni? Við þurfum að íhuga það og svara því hvort svo geti verið.

Ég viðurkenni að ég er efins um alla þá umsýslun sem felst í þessari leið, nýtt kerfi til innheimtu, umsýslan í kringum það, flækjustigið, skilgreiningu á því hvar á að rukka og hvar ekki, hvaða staðir koma til greina, það áreiti sem skapast af því eftirliti sem fylgir og að það gæti, í því samhengi sem ég fór yfir áðan með vöruna, mögulega skaðað vöruna og upplifun markhópsins. Þetta má jafnframt lesa út úr þeirri gagnrýni sem kemur fram í greinum frumvarpsins og einstökum greinum, alveg frá 2. gr. frumvarpsins til 11. gr. Ég undanskil þar 5. gr. þar sem ég er mjög hlynntur því sem snýr að fagráði um öryggismál ferðamanna, ég styð það heils hugar.

Það birtist þó í þessu aukin skriffinnska, reglugerðarfargan og kostnaður samhliða. Ef þetta á að virka og ganga upp þarf eftirlit og jafnvel að fylgja strangt eftir þeim sektarheimildum og reglum, skráningu og listum sem koma fram. Ferðamálastofa fær á sig einhvers konar mynd innheimtustofnunar. Það er alveg spurning hvort þeir fjármunir sem takmarkast eiga við 3,5% af innheimtum pössum sem fara í reksturinn dugi og það kemur ágætlega fram í frumvarpinu í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Að öllu þessu sögðu hefur þetta frumvarp auðvitað sínar jákvæðu hliðar. Hæstv. ráðherra hefur bent á að hér greiði þeir sem njóta og það hefur jafnframt verið bent á að náttúran sé ekki viðkvæm fyrir verðbreytingu eins og mögulega aðrir þættir. Ég aðhylltist fyrir fram blandaða leið með þeim kerfum og sköttum sem þegar eru til staðar en ég hef þó þá trú að eftir umsagnir sem eiga eftir að koma fyrir hv. atvinnuveganefnd verði hægt að ná sátt um leið.