144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er engin leið gallalaus og það mundi létta okkur störfin oft ansi mikið ef hægt væri bara að finna þessa einu gallalausu leið. Svo gott er það nú ekki.

Ég held að það komi vel til greina að fara einhvers konar blandaða leið. Ég nefndi það sem dæmi að mér fyndist allt í lagi að skoða það hvort ætti að leggja einhvers konar auðlindagjald á ferðaþjónustufyrirtæki. Það er leið sem mér þætti allt í lagi að skoða.

Komugjöld í einhverri mynd eru annað dæmi um leið sem væri hægt að fara. Ég þekki hana því miður ekki nógu vel og hvaða takmörkunum við sætum varðandi þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist varðandi Evrópska efnahagssvæðið til að þora alveg að hætta mér út í að segja hvaða kostir og gallar séu á henni. En bara fínt, mér finnst allt í lagi að skoða hana líka.

Hvað varðar náttúrupassann þá sagði ég einmitt í upphafi máls míns að mér fyndist hann hafa tvo svo stóra galla að ég sæi ekki hvernig við ættum að komast fram hjá þeim. Annars vegar það sem varðar almannaréttinn og hins vegar það, og ég kaupi það bara ekki, svo maður noti svona óformlegt orðalag, að þetta mundi skila þeim tekjum sem til er ætlast jafnvel þó svo að maður væri til í að gefa almannaréttinn eftir, sem ég er ekki.

Að mínu mati þurfum við að finna mögulega blandaða leið en ég sé ekki náttúrupassann innan þeirrar leiðar.