144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir umræðuna. Hann segir að við þurfum að breyta um stefnu. Ég er sammála því. Ég er hins vegar ósammála þeirri stefnu sem þingmaðurinn vill aðallega leggja áherslu á, sem sé að hjálpa fólki að eignast. Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda undanfarna áratugi.

Árið 2011 sameinuðumst við um að nú skyldum við leggja aukna áherslu á aðgengi að leiguhúsnæði með húsnæðisöryggi að leiðarljósi. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram svipaða stefnu. Allir eru sammála um mikilvægi þess að losa fólk undan oki skulda og auka sveigjanleika fólks á húsnæðismarkaði með auknu framboði á leiguhúsnæði. Oft er það líka þannig að ungt fólk er að hefja búskap og á síðan eftir að flytjast tímabundið til útlanda og slíkt og þá er fráleitt að hafa staðið í fjárfestingum á húsnæði.

Ef við ætlum að spara fyrir húsnæði handa börnunum okkar þarf í dag að eiga að minnsta kosti 3 milljónir, heppilegt að eiga 5 milljónir. Barnæskan er 216 mánuðir. Ef ég ætla að safna 3 milljónum fyrir barnið mitt þarf ég að leggja til hliðar á mánuði 14 þús. kr., svo margföldum við þá tölu með þeim fjölda barna sem við erum með á okkar framfæri. Ef ég ætla að safna upp í 5 milljónir til að hafa vaðið fyrir neðan mig þarf ég að leggja fyrir vel yfir 20 þús. kr. á mánuði. Þetta er fyrir fáa. Til að auka jafnræði á húsnæðismarkaði, húsnæðisöryggi, eigum við að fjölga leiguíbúðum, breyta húsnæðisbótakerfinu og koma á stofnstyrkjum. Það er það sem ég vil sjá í fjárlögum (Forseti hringir.) eftir 80 milljarða millifærslu (Forseti hringir.)