144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta en vegna þess að hér er ýjað að því að þetta frumvarp sé nú smærra í sniðum en ýmis efnisatriði sem munu á eftir koma, og það er alveg rétt að ég á eftir að koma með fleiri frumvörp af þessum toga, þá vil ég nú samt segja að orðanotkunin skiptir þennan hóp verulega miklu máli og það hvernig hlutir eru orðaðir í lögum skiptir máli. Ég vil því líka að menn beri virðingu fyrir þessu tiltekna máli að því leyti til. Þarna er verið að breyta orðanotkun sem hefur tíðkast mjög lengi og orðum sem hafa breytt um merkingu í gegnum tíðina, í gegnum aldir getum við stundum sagt. Um það erum við að fjalla núna og að mínu viti skiptir það einnig máli í við innleiðingu eða fullgildingu á þessu viðamikla máli.