144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

vísun máls til nefndar.

[15:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs af því að í gær mælti hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fyrir frumvarpi sínu um afnám laga um orlof húsmæðra. Frumvarpinu var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar en lög þessi heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvaða rök hafi legið fyrir því að senda málið ekki til velferðarnefndar. Mig langar líka að spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé á þingfundaskrifstofu farið yfir það áður en mælt er fyrir málum hvert þau eigi að fara. Hérna er hreinlega verið að nema lögin úr gildi þannig að það er nokkuð afdráttarlaus aðgerð. Svo kunna að vera stærri mál fram undan þar sem mjög óheppilegt er að hægt sé að vísa málum bara þangað sem hver og einn telur henta hverju sinni.