144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

glufur í skattalögum.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða hér um tiltekin mál tiltekinna fyrirtækja enda hef ég ekki forsendur til þess. Ég vil þó taka skýrt fram að ég tel að ég og hv. fyrirspyrjandi séum sammála um að stefna beri að því að hámarka skatttekjur ríkisins af þeirri starfsemi sem hér fer fram. En þar er að ýmsu að hyggja, meðal annars því að ríkið má ekki skattpína fyrirtæki að því marki að menn veigri sér við að fjárfesta á Íslandi. Að því sögðu er mjög mikilvægt að sú starfsemi sem hér á sér stað skili sem mestu til samfélagsins.

Það er hins vegar óhjákvæmilegt að setja þetta í samhengi við umræðu sem átt hefur sér stað undanfarin ár um erlenda fjárfestingu þar sem við framsóknarmenn höfum bent á að þó að erlend fjárfesting væri vissulega mikilvæg og eftirsóknarverð, og við legðum okkar af mörkum til að reyna að ýta undir hana, hefði hún þó ákveðna galla sem ekki væri að finna í innlendri fjárfestingu. Þegar við höfum reynt að benda á þetta höfum við stundum verið sakaðir um að vilja loka landinu, eins fráleitt og það kann að virðast, en einn af göllunum við erlenda fjárfestingu er einmitt sá að eðli málsins samkvæmt, virðulegi forseti, og ekkert hægt að setja út á það, vilja erlendu fjárfestarnir ná fjárfestingu sinni til baka og það með vöxtum og mun betri vöxtum en þeir gætu fengið út úr því að leggja peningana inn á bankabók.

Með öðrum orðum hefur erlend fjárfesting ýmis einkenni erlendrar lántöku. Það þarf að hafa í huga. Það þýðir ekki að erlend fjárfesting sé slæm, það þýðir bara að taka þarf þetta með í reikninginn. Það birtist okkur meðal annars í því að erlend fyrirtæki geta tekið lán hjá móðurfélögum en þau geta raunar tekið lán hjá banka og dregið afborganir af þeim frá skattstofni á sama hátt.