144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Kosturinn við það að fara þá leið sem minni hlutinn leggur til er sá að með því taka allir sem nota orku, rafmagn eða heitt vatn, til húshitunar þátt í jöfnuninni. Það eru ekki bara stórnotendur raforku sem þar með leggja sitt af mörkum heldur líka sá mikli meiri hluti landsmanna sem nýtur þeirra hlunninda að kynda hús sín með ódýru, heitu vatni. Það finnst mér svo borðleggjandi besta og sanngjarnasta fyrirkomulagið. Þetta er það öflugur tekjustofn að hann má næstum helminga miðað við núverandi áætlun. Ætli það væri ekki nóg að geta fært stóriðjunni þann gleðiboðskap að frá og með 2016 helmingaðist raforkuskatturinn eða svo til?

Ég tel að bæði efnislega og líka út frá þessum almennu sjónarmiðum sé svo augljóst að þetta er betri leið og sanngjarnari en að leggja alla jöfnunina og þunga hennar á þá sem nota raforku í þéttbýli. Það er miklu þrengri markhópur til að standa að baki þessari jöfnun (Forseti hringir.) og það vantar ekkert nema viljann að mínu mati. En það má greinilega ekki anda á vissa aðila af hálfu núverandi ríkisstjórnar.