144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mat ráðuneytisins, eins og fram kom í ávarpi mínu hér og í texta með tillögunni, að það sé metið svo að litlar líkur séu á því að menn muni fara í miklum mæli yfir landamæri að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er meðal annars vegna þess að samkvæmt tilskipuninni er löndunum heimilt að setja ákveðnar takmarkanir á slíkri þjónustu og þjónustan er víða sambærileg svo að dæmi sé tekið. Það er líka mögulegt að biðja um fyrirframsamþykki, ef menn vilja fara og sækja sér læknisþjónustu þá er hægt að setja þá kröfu. Allt þetta þarf að sjálfsögðu að útfæra í lögunum og því frumvarpi sem verður hér lagt fram.

Felast í þessu einhver tækifæri fyrir Ísland? Það er vitanlega alveg ljóst að ef erlendir aðilar, sjúklingar innan EES-svæðisins, vilja koma til Íslands og sækja sér heilbrigðisþjónustu og þeirra ríki hefur ekki sett neinar reglur sem aftrar þeim frá því eða takmarkar það með einhverjum hætti o.s.frv., ef ég er með rétta sýn á þessa gerð, þá ætti það að auðvelda það.

En ég ítreka að útfærslan er að sjálfsögðu mjög mikið undir því komin hvernig lagafrumvarpið mun líta út.