144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, en vildi þó fyrst og fremst inna hann eftir því sem hann nefndi í lokaorðum sínum, af því að hv. þingmaður situr í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og hefur oft og einatt verið talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þeim málaflokki og því sem lýtur að fjármálamörkuðum. Hann lýsir því hér yfir að tilskipunin um innlánin sé ekki góð. Þá hlýtur maður að spyrja: Er hv. þingmaður þá að segja að hann telji að við eigum ekki að innleiða hana? Við getum jú ekki átt að innleiða tilskipanir sem við teljum ekki vera góðar. Hvaða staða er þá uppi ef við gerum það ekki í þessu samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið og þátttöku okkar í því?

Vegna þess hversu gríðarlega mikið hagsmunamál er á ferð, þó að málið sé ekki nákvæmlega sú tilskipun sem hér er undir þá gerði þingmaðurinn þetta að sérstöku umfjöllunarefni, er óhjákvæmilegt annað en að spyrja þingmanninn nánar út í þau orð.