144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fjárlög fyrir árið 2013 voru samþykkt í lok árs 2012. Síðan voru fjáraukalög samþykkt í lok árs 2013 og núna, í upphafi árs 2015, erum við að samþykkja lokafjárlög. Spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort hægt sé að stytta þetta ferli frá lokum árs 2013 þar til lokafjárlög eru samþykkt. Ég vildi helst sjá það í febrúar eða mars ári seinna. Það ætti að vera hægt ef menn setja sér það markmið. Þetta gera stórfyrirtæki um allan heim með miklu fleiri færslur en íslenska ríkið, þeim tekst að koma fram ársreikningum í janúar eða febrúar og spurning mín er hvort að þessu sé stefnt og hvort þessi nýju fjárreiðulög geri þetta mögulegt.

Svo væri gott að sjá hvernig afgangurinn á fjárlögum árið 2013 og fjáraukalögum og síðan endanlegum lokafjárlögum þróast. Það er afgangur hjá ríkissjóði sem skiptir til dæmis máli fyrir þróun verðbólgu, og þá hinn raunverulegi afgangur en ekki einhver sýndarafgangur eins og hefur stundum verið hér áður fyrr.