144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fagna því að verið sé að horfa á þessa hluti í samhengi, þ.e. sporbundnar almenningssamgöngur hér innan höfuðborgarinnar og síðan á milli höfuðborgarinnar og flugvallarsvæðisins. Ég tel raunar að við ættum að líta á allt landnám Ingólfs meira og minna sem eitt svæði í þessu. En það skiptir þá máli í því að flytja fólk til þeirra samgönguleiða sem liggja til flugvallarins, að hafa hér samgöngur innan borgarinnar.

Ég spyr því: Er einvörðungu ætlunin að skoða léttlestakerfi eða hafa menn líka jarðlestir í huga, sem við vitum að lagt hefur verið í í litlu stærra þéttbýli, t.d. í Malmö, fyrir allnokkru síðan? Það virðist vera æ hagkvæmari kostur fyrir minni borgir að ráðast í slíka innviðauppbyggingu. En vegna þess að við ræðum samgöngur við flugvöllinn og við vitum nú sem er að formaður þeirrar nefndar sem lagt er til að málinu sé vísað til er sérstakur áhugamaður um flugvallarmálið svokallaða, þá spyr ég: Ef hægt er að finna hagkvæma og arðbæra leið til þess að stytta ferðatímann frá Reykjavík til Keflavíkur með svo verulega eins og allt bendir til í forkönnun á þeirri leið, gæti það þá ekki orðið til þess að létta mönnum mjög lausn þess viðkvæma deilumáls sem nú hefur sundrað margri fylkingunni í landinu um langt árabil, sem er einmitt málefni Reykjavíkurflugvallar og innanlandsflugs frá þéttbýlinu?