144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna það að tillagan gengur út á léttlestakerfi og ekki er horft til annars konar sporbundinna samgangna svo sem jarðlesta, sem er auðvitað alveg feikilega þægilegur ferðamáti. Það er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að ákveðið verði að teygja athugunina út til þess. Ég ímynda mér að það sé hins vegar talsvert dýrari framkvæmd, stofnkostnaður, í ljósi þess að það mundi kalla á skoðun á því hvort þetta svæði hér á höfuðborgarsvæðinu mundi standa undir slíku. Léttlestakerfi er talið raunhæfari kostur fyrir íbúabyggð með þennan fjölda.

Hins vegar tek ég undir það sem hv. þingmaður segir þegar hann talar um landnám Ingólfs og í raun og veru má tala um hið stóra suðvesturhorn, við getum líka talað um „frá Hvítá til Hvítár“, kannski er það landnám Ingólfs, ég þyrfti nú hreinlega að rifja upp Landnámabók og Íslendingabók til að fá það algjörlega á hreint. Frá Hvítá til Hvítár getum við sagt, það er orðið eitt atvinnusvæði. Þar ferðast fólk hiklaust til og frá vinnu. Þess vegna væri ekki úr vegi að skoða eitthvert heildstætt samgöngukerfi á þessu sviði ef menn vilja gera einhverja alvöru úr þessu.

Við höfum séð að eftir að ráðist var í eflingu almenningssamgangna með samningi ríkisins og sveitarfélaganna hefur þeim fjölgað mjög sem kjósa að nýta sér almenningssamgöngur, til að mynda frá Selfossi til Reykjavíkur, frá Borgarnesi til Reykjavíkur og auðvitað líka í hina áttina. Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það verkefni hefur breytt ásýnd almenningssamgangna og viðhorfi almennings til þess að nýta sér almenningssamgöngur með þessum hætti í lengri ferðalög.