144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í upptalninguna um þessar stórframkvæmdir má náttúrlega bæta við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem menn fyrir aðeins tiltölulega fáum árum síðan töldu allt, allt, allt of stóra byggingu, en er nú sannarlega sprungin.

Það er rétt sem fram kemur hjá þingmanninum að byggðamálin, sem oft eru rædd í sölum þingsins, hið stóra byggðamál er málefni byggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem 2/3 hlutar landsmanna búa og innviðirnir hér skipta auðvitað sköpum um samkeppnishæfni okkar við útlönd.

Af því að þingmaðurinn er, eins og hann vék að sjálfur, nýkominn af vettvangi borgarstjórnarinnar vil ég spyrja hann hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að það sé algjör forsenda fyrir því að hægt sé að ráðast í svona mikla uppbyggingu á innviðum á höfuðborgarsvæðinu í almenningssamgöngum, hvort sem það væru léttlestir eða samgöngur við Keflavík eða annað þess háttar, að bæði innan borgarinnar og líka á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu væri algjör forsenda fyrir því að ríkið kæmi að þeirri uppbyggingu, stofnfjárfestingunni og ef ekki alfarið þá a.m.k. að mjög verulegu leyti, vegna þess að sveitarfélögin geti ekki við núverandi aðstæður borgað stofnfjárfestinguna sem sannarlega mun ekki fást til baka í fargjöldum, a.m.k. ekki hér innan bæjar, frekar en það gerir hjá Strætó bs.