144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og frú forseti hefur fylgst með í umræðunum hér í dag er búið að draga fram umsagnir sveitarfélaga, Landverndar, Skipulagsstofnunar og meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar svo eitthvað sé nefnt og alls staðar er talað um að þetta frumvarp sé vanbúið, það þurfi að gera betur. Það væri kannski ekki merkilegt þó að það væru einhverjir umsagnaraðilar úti í bæ ef það væru ekki líka stjórnarliðar. Stjórnarliðar koma með mjög skýr skilaboð í nefndaráliti um að málið sé vanbúið og ég skora á hæstv. forseta að kalla til sín hv. forustumenn hv. atvinnuveganefndar og hlutast til um að málið verði tekið inn í nefndina (Forseti hringir.) nú þegar til frekari vinnslu.