144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann minntist á að ef ekki tækist að búa málið betur úr garði en gert er þyrfti að leggja fram frávísunartillögu. Ég vek athygli á því að það nefndarálit sem ég stend fyrir í 1. minni hluta atvinnuveganefndar er með frávísunartillögu. Það er byggt á því að komið hefur fram mikil gagnrýni, þar á meðal í áliti skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem segir að frumvarpið sé vanbúið og skorti mun vandaðri skýringar og rökstuðning fyrir þeim tillögum sem skerða skipulagsvaldið.

Ég enda nefndarálit mitt á því að segja að málið eigi að fara til ríkisstjórnarinnar sem skuli vinna það betur og með ítarlegri hætti og reyna að ná sátt um málið, en ég er vissulega tilbúin til þess að við reynum með öllu móti í atvinnuveganefnd að ná einhverri sátt í þessu stóra máli og að nefndin taki tillit til sjónarmiða í umsögnum þeim sem hafa komið frá umhverfis- og samgöngunefnd, bæði frá minni og meiri hluta.

Ég vil heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi landsskipulagið. Það er í vinnslu í dag og menn bíða eftir því. Það hefur komið fram í umsögnum að menn hafa lagt til að kerfisáætlun fari inn í landsskipulag. Þá þyrftum við að bíða þess að það lægi þá fyrir og menn mundu vilja vinna þetta saman, því að það hlýtur að skarast í framtíðinni ef landsskipulag gerir ráð fyrir einhverju allt öðru en væntanleg kerfisáætlun mun gera ráð fyrir. Hvernig vinnum við þá með það í framhaldinu?