144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki í fyrsta skipti sem sú sem hér stendur ræðir málin undir miðnætti og þykir það kannski ekki tiltökumál í ljósi þess hvað þetta mál er stórt og mikið. Í ljósi þeirra orða sem hafa fallið í dag og í kvöld er það eiginlega ákveðin óbilgirni að vilja ekki hlusta á þau rök sem hér hafa verið færð fram og vísað til þeirra álita sem undir málinu liggja og virðast í rauninni mestmegnis hafa verið hunsuð af meiri hluta atvinnuveganefndar.

Eins og ég sagði áðan í störfum þingsins hef ég setið undir umræðunni í dag og hef orðið margs vísari og af því að þetta er ekki mál sem tilheyrir þeirri nefnd sem ég sit í þykir mér skylt að reyna að setja mig svolítið inn í málin. Það er ekki eins og þetta sé eitthvert léttvigtarmál og því veltir maður auðvitað fyrir sér vinnubrögðunum. Ég hugsa líka um það að hér hefur verið tómur salur af stjórnarþingmönnum í dag fyrir utan framsögumann nefndarálits meiri hluta og svo nýverið formann atvinnuveganefndar, sem finnst held ég skemmtilegast að reyna að koma ekki vel fram og reyna að efna til illinda í staðinn fyrir að lagfæra mál.

Ég hef velt því fyrir mér: Þekkja stjórnarþingmenn almennt þetta mál eða er þeim alveg sama? Eigum við að gera ráð fyrir því að þeim finnist málið vera þannig að þeir geti látið einhverja aðra segja sér að í lagi sé að greiða með því atkvæði? Það væri áhugavert að vita hvort flestir þingmennirnir gætu svarað fyrir þetta mál því það er eitt af stærri málunum sem við fjöllum um. Ég lít svo á að vinnubrögðin sem hér hafa verið viðhöfð séu ótæk, að bíða ekki eftir áliti nefndar sem óskað hefur verið eftir eins og hér hefur komið fram hjá umhverfis- og samgöngunefnd og taka málið út þegar ljóst er að ráðherra hefur sagt að ekkert liggi á. Ég tek því undir þá ósk sem hér hefur komið fram að forseti ræði það við formenn þingflokka a.m.k. og taki það upp á forsætisnefndarfundi hvernig samstarfi nefnda skuli háttað. Það er augljóslega ekki í góðum farvegi að gera þetta með þeim hætti sem hér hefur verið gert og vinnubrögðin þurfa að vera mun vandaðri. Tilgangur umsagna hlýtur að vera sá að mál batni, að við búum til betri löggjöf og þá er staða nefnda í þinginu mikilvæg eins og annarra sem við óskum eftir áliti frá. Það hljóta líka að vera auknar líkur á sátt ef störf nefnda eru virt og tekið er tillit til umsagna. Eins og hér hefur verið rakið hefur gagnrýninni ekki verið efnislega svarað af hálfu framsögumanns meiri hluta atvinnuveganefndar og það kemur alls ekki fram í álitinu. Það hlýtur að kalla á spurningar hvers vegna ekki er tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem kemur fram á frumvarpið eða um hana fjallað, hvort sem hún kemur frá Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða Landvernd eða hverjum það nú er sem hafa gefið álit sitt og lagt í það mjög mikla vinnu. Hér eru lagðar fram ítarlegar greiningar og athugasemdir og auðvitað spyr maður sig hvers vegna í ósköpunum ekki er litið til þess.

Ég velti því fyrir mér hvort það er markmið formanns atvinnuveganefndar að hafa mál almennt í ágreiningi af því að ráðherra málaflokksins segir að ekkert liggi á, hún leggur áherslu á að málið sé afgreitt í sátt. Þá velti ég því fyrir mér, eins og kom hér fram áðan: Hvað er eiginlega undirliggjandi í þessu? Af hverju lá mönnum svona á að taka málið út?

Virðulegi forseti. Þetta var um það sem hefur gengið á í dag og hefur verið varpað fram í umræðunni og mönnum verður æ ljósara að málið er vanbúið. Það er ekki nóg að fá gesti á fundi ef maður hunsar nánast alveg það sem þeir segja eða leggja fram formlega. Það hlýtur að bera vott um að menn ætli að afgreiða mál eftir eigin geðþótta en ekki samkvæmt faglegum röksemdum. Ég þekki þetta mál ekki til hlítar og hef ekki setið fundi eða gestakomur eða neitt slíkt en hef lesið það yfir og fylgst með umræðunni og það gefur til kynna að hér sé allt of margt sem þurfi að lagfæra til að hér náist sátt. Og það er svolítið sérstakt ef maður veltir fyrir sér dagskrá þingsins. Nú halda væntanlega margir að við séum í málþófi. Ég lít ekki svo á. Ég lít þannig á að við séum að reyna að knýja fram að tekið sé tillit til þess sem ber að taka tillit til og álit nefndar sem fengin er til að gefa álit sitt á málinu sé tekið til efnislegrar umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Það hefur ekki verið gert. Það er grafalvarlegt mál og ég vitnaði hér áðan í þingsköpin því álit umhverfis- og samgöngunefndar er ekki lagt fram með áliti meiri hlutans eins og ber að gera. Forseti hlýtur að taka það til athugunar jafnframt því að ræða þarf samskipti nefnda. Ég tek því undir að það á auðvitað að kalla málið inn núna. Það á ekki að bíða eftir því að umræðan klárist. Síðan verða vonandi gerðar veigamiklar breytingar á málinu í átt til sáttar og betrumbóta því að það hefur komið fram í umræðunni í dag að fólk er tilbúið til að leita sátta. Þetta snýst ekki um vinstri og hægri pólitík. Þetta snýst um það að mikilvægar stofnanir samfélagsins gera stórfelldar athugasemdir og það er mjög sérstakt að einlægur vilji sé til að ganga gegn því sem í þeim kemur fram.

Ég ætla að grípa niður í það sem ég hef hnotið um og fundist athugunarvert, en það er m.a. um ferli þessara mála og samráðsferli sem á að viðhafa. Það kemur fram í frumvarpinu að stór hluti ferlisins á að fara fram með reglugerðarheimild, það kemur fram í d-lið 2. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun eða fylgja með henni, hvernig standa skuli að samráðsferli við undirbúning hennar, framkvæmd hennar og eftirfylgni, m.a. hvaða úrræði Orkustofnun hefur til að sjá til þess að kerfisáætlun sé fylgt eftir, hvernig haga skuli valkostagreiningu og hvaða forsendur og aðferðafræði skuli styðjast við.“

Mér finnst ráðherra fá hér ótrúlega mikið vald. Ég tek undir þau sjónarmið að þingið og kjörnir fulltrúar eigi að koma að þessu mikilvæga ferli og undirbúningi og þegar valkostir liggi fyrir fái nefnd og þingmenn að fjalla um það, fái það inn á borð til sín.

Auðvitað er það sjónarmið mjög uppi núna í anda gagnsæis og þess að fólk viti í rauninni hvað það er að samþykkja að reglugerð eða drög að henni fylgi með frumvörpum, sérstaklega þeim sem ætlað er að taka á svona víðu sviði. Ég held að það sé líka eitt af því sem þarf að ýta við framkvæmdarvaldinu með, að auka þetta enn frekar því það er allt of sjaldgæft að reglugerðir komi fram með frumvörpum. Þegar samið er lagafrumvarp og reglugerð á að fylgja því hlýtur að vera farin að mótast einhver hugmynd um það hvernig hún á að líta út og því engin ástæða til þess að hún fylgi ekki með, að minnsta kosti drög.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkrar umsagnir, m.a. frá sveitarfélögum. Akureyrarbær kemur inn á að verulega skorti á samráð við hagsmunaaðila og orðar með þeim hætti að það skorti á að tekið sé tillit til nútímalegra viðhorfa í umhverfis- og náttúruverndarmálum og að stigið sé harkalega á skipulagsvald og sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga með frumvarpinu. Af því að hér var talað um að framsetningin á málinu væri ættuð aftan úr fornöld, eða alla vega síðan 1975 eða slíkt, þá styður þetta kannski svolítið við það að fólki finnst þetta vera fornaldarleg vinnubrögð og ekki í takti við það sem við eigum að gera. Við vitum það öll að umhverfis- og náttúruvitund hefur aukist og við viljum hafa aukið samráð við stefnumótun mála. Sveitarfélögin hafa kallað mjög eftir því og standa sig mun betur en ríkið á þeim vettvangi. Það er bara hluti af því sem tíðkast í nútímasamfélagi.

Það var líka rætt og vekur fólk til umhugsunar að í b-lið 2. gr. frumvarpsins skuli hvorki vera tekið tillit til umhverfismála og ferðamála né byggða- eða skipulagsmála við framkvæmd kerfisáætlunar. Það hlýtur að vekja upp spurningar hvers vegna nefndin velur að breyta ekki frumvarpinu í þá átt að til þessa sé tekið tillit.

Síðan er líka mjög bagalegt og er vakin á því athygli í umsögnum að Orkustofnun sem á að vera eftirlitsaðili með framkvæmd í kerfisáætluninni eigi bara að hafa samráð við viðskiptavini flutningsfyrirtækisins við þetta eftirlit, enga aðra en hagsmunaaðilana beint. Eins og hér hefur verið rætt kemur það fram hjá sveitarfélögunum að það eykur líkur á sátt ef samráð er meira en hér hefur verið.

Það er 2. gr. frumvarpsins, sem á að verða 9. gr. laganna, sem virðist standa einna mest í þeim sem um málið fjalla og ég velti því fyrir mér áðan hvað það væri sem nefndin ætti erfitt með að taka tillit til. Skipulagsvald sveitarfélaganna er þrengt og það er sagt að stjórnarskrárvarinn sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sé skertur og þurfi að gera á því breytingar. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna nefndin vill fara fram með þeim hætti. Flutningsfyrirtækið fær mikið vald og ef ekki næst samstaða aðila þá er í rauninni málið allt stopp.

Hér hefur verið vitnað til þess að hægt sé að fara með málið í sambærilegan farveg og samgönguáætlun. Ég tel að það væri afar gott verklag og legg til að þegar nefndin tekur málið til sín verði það íhugað og mér finnst að menn þurfi að færa mjög góðan rökstuðning fyrir því telji þeir það ekki geta gengið. Ég held að ræða þurfi það betur að skipulagsvald sveitarfélaga er hér skert eins og sveitarfélögin kvarta yfir. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er fjallað um samráð um kerfisáætlun og lagt til að hægt sé að vísa ágreiningi til formlegrar sáttanefndar. Það er ekkert tekið fyrir í nefndaráliti atvinnuveganefndar. Samband íslenskra sveitarfélaga vekur líka athygli á því að niðurstaða um efni nýrrar 9. gr. c geti verið fordæmisgefandi í sambærilegum málum, og eru nefndar ákvarðanir um lagningu samgöngu- og fjarskiptamannvirkja. Af þessu virðist meiri hluti atvinnuveganefndar ekki hafa nokkrar áhyggjur og það hefði verið áhugavert að rökstuðningur hefði komið fram um hvers vegna hann telur ekki þörf á að taka undir þessar áhyggjur sambandsins.

Ég held að við þurfum að fara vel og vandlega yfir og skoða grundvallarhugsunina um skipulagsvald sveitarfélaga. Er Alþingi tilbúið til að ganga nærri því með þessum hætti án þess að sveitarfélögin fái í raun að skýra mál sitt betur eða tekið sé tillit til þeirra? Er það þá bara eitthvað sem er komið til að vera? Meiri hluta atvinnuveganefndar finnst það vera í lagi. Ég trúi því ekki að svo sé og ég trúi því ekki að þeir þingmenn sem hafa ekki hlustað á umræðu eða setið hér í dag eða fylgst með eða kynnt sér þetta mál geti tekið undir það. Það eru svo margir sem eiga sitt undir þessum lögum og er m.a. talað um landeigendur og náttúruverndarsamtök og fleiri sem eru í uppnámi varðandi það hvert þeir geta skotið málum sínum ef þeir eru ekki sáttir við niðurstöðu mála. Ég held að atvinnuveganefnd geti ekki leyft sér að leggja málið fyrir þingið svona vanbúið og því ítreka ég enn og aftur eins og fleiri að ef forseti hyggst halda áfram umræðunni verði henni frestað og málinu vísað til nefndar en hún verði ekki tekin aftur upp á morgun og kláruð.

Rétt að lokum, ég tek undir með áliti minni hluta atvinnuveganefndar þar sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir leggur fram frávísunartillögu. Ef meiri hluti nefndarinnar tekur ekki sönsum með þetta og vill ekki laga málið á nokkurn hátt er ekkert annað að gera en að vísa málinu frá. Ég trúi því heldur ekki að hæstv. ráðherra vilji gera það, í ljósi orða hennar. Það er svo margt sem hér hefur komið fram sem segir manni að hægt sé að ná sátt án þess að málið sem slíkt falli um sjálft sig, ég trúi því að mun meiri sátt geti náðst um það, a.m.k. meiri en hér er boðið upp á.

Það er vert að vekja athygli á umhverfissjónarmiðum í tengslum við þetta en mjög ítrekað og víða hefur verið tekið fram og Samband sveitarfélaga hefur líka séð ástæðu til að geta þess í sinni umsögn að umhverfissjónarmið séu fyrir borð borin í frumvarpinu, m.a. vegna þess að Orkustofnun eigi eingöngu að staðfesta kerfisáætlun og aðrir komi ekki þar að. Minni hlutinn gerir við það miklar athugasemdir og telur það ekki vera í samræmi við þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins enda eigi kerfisáætlun að lúta faglegu, óháðu og ströngu eftirliti. Það kemur líka fram hjá fleiri aðilum og m.a. í minnisblaði frá Landvernd þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og staðfest var í skýrslu norsku orkustofnunarinnar árið 2011 er Orkustofnun vanbúin til að sinna eftirliti með framkvæmd raforkulaga. Skortir stofnunina algerlega sjálfstæði til að sinna slíku eftirliti, þar sem fólkið sem vinnur við það, samtals fjórir starfsmenn, eru settir beint undir orkumálastjóra, sem fer fyrir allri starfsemi Orkustofnunar, sem einkum er á sviði ráðgjafar við yfirvöld um orkuöflun og orkumál yfirleitt. Þetta ósjálfstæði eftirlitsins frá öðrum hlutum framkvæmdarvaldsins verður óheimilt með gildistöku þriðju raforkutilskipunarinnar. Það sýnist fullkomlega vanhugsað að fela Orkustofnun við þessar aðstæður allt það aukna vald sem frumvarpið, 305. mál, gerir ráð fyrir. Það er næsta víst að ESA mun fylgjast mjög náið með því.“

Hér er vitnað í norsku orkustofnunina, ekki einhverja þingmenn eða einhverja úti í bæ heldur er hér vitnað til aðila sem tóku þetta út árið 2011 (Forseti hringir.) og segja beinlínis að stofnunin sé ekki tilbúin til að sinna eftirlitinu.