144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta beint og óska eftir að fá viðbrögð við því hvernig hæstv. forseti ætlar að fara með þær athugasemdir sem gerðar hafa verið í kvöld við framgöngu hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem formanns atvinnuveganefndar í ræðustól. Hér hefur verið bent á að þingskapalög hafi verið brotin. Hér hefur hv. þingmaður atyrt og gert lítið úr vinnu annarrar þingnefndar. Á bara að láta það óátalið?

Ég verð að segja að ég er fyrst og fremst mjög leið yfir þessari framgöngu. Ég get fullyrt að allir í þessum sal reyna að vinna vel og gera vel. Það er ekki undir svona tali sitjandi og sérstaklega ekki frá þingmanni sem ekki hefur lagt neitt til umræðunnar, ekki neitt. Það hefur ekkert efnislegt komið hér fram, ekki neitt og í engu reynt að svara efnislega þeim athugasemdum sem gerðar eru í umsögnum eða umsögn (Forseti hringir.) hv. umhverfis- og samgöngunefndar.