144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka og lögum um neytendalán. Málið fjallar um varúðarreglur um erlend lán. Hvert er tilefni þess að við ræðum það að leiða í lög að heimila erlend lán í krónum eða krónulán sem miðast við erlenda mynt þegar okkur er ljóst hversu miklum skaða slík lán geta valdið? Tilefnið er málarekstur ESA, sem hefur fært rök fyrir því í skjali, rökstuddu áliti, að ekki sé hægt að banna lán í íslenskum krónum með viðmiði við erlenda mynt vegna þess að í því sé fólgin einhvers konar hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum. Þetta er vissulega langsótt, sérstaklega þegar á það er bent að það er í raun ekki hindrun fyrir erlenda fjárfesta að veita íslenskum bönkum lán í erlendri mynt sem síðan er lánað áfram í erlendri mynt, en ESA bendir líka á ósamræmið í því að banna aðra tegund erlendra lána en ekki hina. Það er því erfitt að verjast þessu, ef við ætluðum að banna erlend gengistryggð lán í íslenskum krónum, þá yrðum við trúlega að setja sama bann við lánum í erlendri mynt og yrðum líka að breyta 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þar sem leyft er að miða lánasamninga við erlendar hlutabréfavísitölur. Í dómi sínum benti ESA á að ef ríki ætlaði að setja einhverjar skorður við frjálsum fjármagnsflutningum yrði að vera algjört samræmi í aðgerðinni.

Hin leiðin er sú að innleiða afnám hins fortakslausa banns við einni tegund erlendra lána og setja um leið skynsamlegar reglur, í stað þessa fortakslausa banns, sem draga úr skaðseminni. Þangað erum við komin og það er jákvætt að með frumvarpinu er verið að setja reglur um lán sem veitt eru í erlendri mynt og hafa tíðkast hér og setja vandaðri ramma um það.

Hvers vegna eru þessi lán yfirleitt skaðleg? Það er ágætur kafli um það í athugasemdum við frumvarpið og nokkrar ástæður eru gefnar. Það er viðurkennt að eftir því sem erlend lán ná meiri útbreiðslu í samfélögum og fólk og fyrirtæki taka lán í annarri mynt en þau hafa tekjur í getur það leitt til mjög mikils efnahagslegs óstöðugleika og lengt kreppur. Í því felst líka ákveðin mismunun á milli samfélagshópa. Þeir sem eru auðugir og geta sýnt fram á það að þeir geti þolað það að verða fyrir áföllum vegna þess að lánið þeirra stökkbreytist eða hækkar skyndilega, geta notið annarra kjara en hinir sem ekki geta sýnt fram á að þola slíkt. Í sjálfu sér er ákveðin mismunun fólgin í því. Menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvort svoleiðis mismunun sé æskileg.

Það sem er alvarlegra er að þeir sem taka lán í annarri mynt en þeir hafa tekjur í velta áhættu yfir á samfélagið. Það er ekki bara einkamál þeirra heldur getur þetta leitt til þess að lánveitendurnir, bankarnir, lendi í vandræðum sem getur leitt til þess að stjórnvöld og skattgreiðendur allir þurfi að hlaupa undir bagga með mjög miklum tilkostnaði. Við höfum séð dæmi um það og það er mjög góð lýsing á því í frumvarpinu á bls. 15, þar er vitnað í Seðlabankann sem bendir á hvað geti gerst þegar aðilar sem ekki hafa erlendar tekjur taka erlend lán. Þá er í raun búið að eyrnamerkja þeim hluta af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins til að standa skil á afborgunum, vegna þess að þeir hafa engar erlendar tekjur. Þeir hafa bara tekjur í krónum en eru skuldbundnir til þess að greiða í gjaldeyri eða ígildi þess. Og þegar hagkerfið er í niðursveiflu er hætta á að slíkir lántakendur hlaupi til og reyni að takmarka tjón sitt með því að greiða upp erlendu lánin áður en vandinn verður verri. Ef margir óvarðir aðilar gera slíkt á sama tíma og verður mjög mikil sókn í sameiginlegan gjaldeyrisvarasjóð okkar getur krónan veikst mjög hratt. Þetta er því í raun og veru ekki eins mikið einkamál og ekki eins mikið frelsismál almennt og mætti halda að leyfa þetta bara og leyfa fólki að taka sína persónulegu áhættu í málinu. Þetta er áhætta sem allt samfélagið þarf að bera með þessum aðilum. Þess vegna eru skilyrði til þess að setja um þetta vandaðar reglur. Það má líka muna eftir því að hlutirnir geta gerst mjög hratt. Það er líka sagt frá því í athugasemdum með frumvarpinu hvernig heimilin skuldsettu sig í erlendri mynt upp í 320 milljarða nánast á tveimur árum. Það gerðist mjög hratt og þessi heimili lentu í miklum efnahagsvanda í framhaldinu þegar krónan féll um 44%, ef ég man rétt, og lánin hækkuðu um hátt í 100%, vegna þess að um leið og krónan veikist um 10–20% gagnvart einhverjum gjaldmiðli hækkar lánið í raun og veru enn meira.

Skaðsemin er því öllum ljós og mikilvægi þess að lágmarka skaðann sem af því hlýst að slík lán séu veitt og tryggja að aðeins þeir sem raunverulega hafa greiðslugetu til þess taki slík lán. Um það er fjallað í greinum frumvarpsins, t.d. í grein um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Þar er lagt til að Seðlabanka verði heimilt að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði að setja lánastofnunum reglur um erlend lán í þeim tilgangi að takmarka lántökur þeirra aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Ég tek undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram í umræðunni að hugsanlega ætti þingið að íhuga að kveða sterkar að. Það geti nefnilega orðið mjög erfitt þegar veislan verður byrjuð næst að taka bolluna úr samkvæminu. Það er betra að gera það núna meðan timburmennirnir eru okkur ofarlega í huga. Það verðum við þingmennirnir að gera núna, læra af þeim mistökum sem urðu. Það er ekkert ofvaxið skilningi þingmanna að taka þá afstöðu kategórískt að það sé alltaf slæmt að þeir sem ekki hafa tekjur í erlendri mynt taki lán í erlendri mynt. Ef þingheimur er sammála því setur þingheimur slík lög. Ég held að ESA muni ekki gera neina athugasemd við það. Eina athugasemdin sem ESA gerir er við svokallað fortakslaust bann við slíkum lánum. Málefnalegt bann kæmi til greina, sem lýtur að almennum reglum sem gilda um alla og stuðla að fjármálalegum stöðugleika þjóðar sem býr við fábreytt efnahagskerfi, sveiflukennt efnahagslíf, sveiflukenndara en stórþjóðir munu nokkurn tíma búa við. Við slíka aðstæður er fullt tilefni til þess að fara gætilega. Það mun að sjálfsögðu efnahags- og viðskiptanefnd gera, hún mun kalla til sín gesti sem eru færir sérfræðingar á þessum sviðum, sérfræðinga frá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og aðra sem hafa áhuga á að leggja nefndinni lið. Ég er viss um að hæstv. ráðherra mun örugglega skoða það ef nefndin leggur til að kveða fastar að orði. Það mætti einmitt fara blandaða leið þar sem þingið eða nefndin kæmi með tillögu um hvað væri hið algjöra skynsemislágmark í veitingu erlendra lána og gengislána til þess að ekki komi upp vandamál í framtíðinni, og hafa síðan reglugerðarheimild fyrir fjármálastöðugleikaráð og Seðlabankann til þess að ganga lengra ef þeir aðilar teldu á því þörf.

Vissulega eru til sjónarmið um að þeir og þau fyrirtæki sem hafa sannanlega tekjur í erlendri mynt og fjárfesta í gjaldeyrisskapandi verkefnum geti skuldsett sig í erlendri mynt og það sé æskilegt. Það eru margar leiðir til þess að takmarka slíkar lántökur. Það er náttúrlega fyrst og fremst gert með því að upplýsa lántakendur. Það mætti hugsa sér að aðeins fagfjárfestum yrði boðið að taka slík lán, það gæti verið málefnaleg afstaða. Sú tillaga kemur reyndar ekki fram í frumvarpinu en fagfjárfestum er treyst til þess að gera áhættusamari fjármálagerninga en almennum neytendum. Þá gætu fyrirtæki og fagfjárfestar sem geta sýnt fram á greiðslugetu í erlendri mynt eða krónum sem miðast við slíka mynt tekið slík lán og haft vit fyrir sjálfum sér og það yrði aldrei í svo miklum mæli að samfélagslegt vandamál skapaðist eða yki á fjármálalegan óstöðugleika sem er nægur fyrir. Það mætti kveða strangt að orði og segja að tekjur skuli alltaf vera í þeirri mynt eða tryggingar í þeirri mynt sem lánið er tekið í, það mætti gera einhvers konar skilyrði um lánstímann vegna þess að því lengri tíma sem lánið er tekið til, því meiri áhætta er tekin af þróun gjaldmiðla. Það mætti gera kröfu um að lánið væri ekki eingreiðslulán í lokin, svokallað kúlulán, heldur væru jafnari greiðslur yfir tímann. Hugsanlega mætti líka gera einhverja kröfu um ábyrgð lánveitandans, að hann væri meðsekur í þeirri áhættu sem skapaðist við slíka lánveitingu eða þyrfti að þola það sem lánastofnun að taka á sig meiri eiginfjárkvöð ef hann veitti slík lán, t.d. tvöfalt meiri en við krónulán. Aðrar slíkar leiðir má fara þannig að kostnaður þessara lána verði skýrari fyrir þann sem tekur lánið, að það sé skýrt að hann geti ekki tekið lán með lágum vöxtum en velt áhættunni yfir á samfélagið. Það þarf að vera miklu meira samhengi í þessu.

Ég hef þá talið upp það helsta sem kæmi til álita en það er kannski ekki okkar hér fyrir fram að vera með annað en vangaveltur. Nefndin mun taka þetta allt til vandlegrar skoðunar og ég held að það sem er jákvætt við frumvarpið sé að það verði meira samræmi í því sem við erum að gera, samræmi á milli erlendra lána, hvort sem þau eru veitt í krónum eða í erlendri mynt og hvernig gætt er að því að þau verði ekki veitt öðrum en þeim sem geta vel ráðið við slík lán og hafa tekjur í þeirri mynt og ekki skapist samfélagslegt vandamál.