144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:07]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um innanlandsflug sem er mjög mikilvægur samgöngumáti fyrir okkur Íslendinga. Innanlandsflugið er kannski einn aðalsamgöngumátinn á móti áætlunarbifreiðum og einkabílum. Við búum ekki við það hér á Íslandi að vera með lestarsamgöngur. Hins vegar háttar þannig til að innanlandsflugið er dýr ferðamáti og fargjöld hafa hækkað á undanförnum árum. Það veldur áhyggjum því að margir þurfa að nota innanlandsflugið, bæði í þeim tilgangi að komast fljótt á milli staða í viðskiptaerindum, vegna vinnu sinnar og líka vegna heilbrigðisþjónustu.

Innanlandsflugið er tenginet sem tengir saman bæi og þorp á landinu og það má alveg segja að netið mætti vera þéttara en það er. Við vitum hins vegar að þetta er dýr ferðamáti og hér ríkir líka fákeppni. Þess vegna var tekin ákvörðun, af fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að láta fara ofan í það hvaða möguleikar væru á því að draga úr kostnaði við innanlandsflugið fyrir þá sem það nota. Til þess var skipaður starfshópur sem nú hefur lokið störfum en markmið hópsins var fyrst og fremst að greina þjónustugjöldin, opinberu gjöldin, sem eru lögð á innanlandsflug með það að markmiði að kanna hvort hægt væri að lækka fargjöld innan lands.

Þessi hópur, sem samanstóð af þingmönnum og mönnum úr atvinnulífinu, komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um auðugan garð að gresja í því að lækka fargjöld. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan hafi verið sú að með tiltölulega auðveldu móti væri hægt að lækka fargjald á hvern legg um 1.800 kr. að mestu. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að möguleiki væri á því að í stað þess að lögð væru á þjónustugjöld kæmi ríkið inn í þennan almenningssamgöngumáta og í staðinn fyrir að leggja á farþegagjöld og lendingargjöld kæmi til ríkisstyrkur.

Því fylgir að vísu ákveðinn annmarki vegna þess að á EES-svæðinu gilda ákveðnar ríkisstyrkjareglur og það þýðir að Reykjavíkurflugvöllur er varla tækur þar inn. Hins vegar eru aðrir flugvellir á landinu þannig að þeir ættu alveg að geta fallið undir þetta ákvæði. Ef felld yrðu niður farþega- og lendingargjöld mundi það kosta ríkissjóð um 400 milljónir og það mundi að meðaltali skila hverjum einstaklingi sem flygi aðra leiðina um 1.200 kr. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að það væri til bóta.

Síðan sá hópurinn fyrir sér að mögulegt væri að breyta virðisaukaskattskerfi á þann veg að farþegaflutningar í flugi yrðu virðisaukaskattsfrjálsir að því leyti til að hægt væri að endurgreiða virðisaukann. Með því að breyta virðisaukaskattslögum gætu náðst þar um 500 kr. til að lækka fargjöld og það þýðir að þá erum við komin í um 1.800 kr. sem ég nefndi hér áðan.