144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

endurskoðun laga um fjárhagsaðstoð og greiðsluaðlögun.

[10:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðsjáanlega mikið hugsað og pælt í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu því það er verið að huga að alls konar hlutum þar en ekkert gerist. Mig langar að spyrja ráðherrann, af því að hún átti að skera úr um ef einhverjir væru ósáttir við afgreiðslu umboðsmanns skuldara, hvort hún hafi fengið mörg mál inn á sitt borð út af þessari fjárhagsaðstoð.

Fram kom fyrr í dag að hæstv. ráðherra væri enn að huga að lögum í húsnæðismálum. Ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að það er eitt að við hér í þingsal séum óþolinmóð, en allt fólkið sem á við vanda að etja, það hlýtur að vera óþolinmótt. Miðað við það og miðað við elju hv. þingmanns á síðasta kjörtímabili þá er það mér til stórrar furðu að hún geti hafa setið í þessu embætti í bráðum tvö ár án þess að nokkuð gerist.