144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú skilja eftir hjá hv. þm. Kristjáni Möller þessi orð hans um þá góðu leið sem hann leggur til, hún hefur sína kosti og hún hefur líka sína galla og við erum einfaldlega ekki sammála um hana.

Fleira mun koma til til hækkunar hjá þeim sem nota skerðanlega orku en bara þessi aðgerð, því miður. Við sjáum að núna eru boðin út kaup á hinu ótrygga rafmagni, þá hafa tilboðin í það hækkað verulega, sem er kannski fyrst og fremst vegna þess að það er mun minna framboð af rafmagni í kerfunum en verið hefur áður og verðið er að stíga. Það skýrir og mun skýra hækkun á rafmagnsreikningum miklu frekar en þessi aðgerð.

Um afdrifin af þessum 240 millj. kr., hvort það fé fari aftur í ríkissjóð, er að sjálfsögðu ómögulegt að segja á þessari stundu, en ég ætla að fara aftur með svarið sem ég flutti áðan í andsvari hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur: Næsta skref í þessum aðgerðum er í mínum huga ekki hugsað til þess að leggja byrðar á í formi jöfnunargjalda eða skatta heldur er miklu frekar horft til þess að nýta framlög úr ríkissjóði til þess. Ég trúi því að það skref sem eftir er sé ekki jafn kostnaðarsamt og það sem við stígum núna. Þar af leiðandi munu þessar 240 millj. kr. sem ríkissjóður mun væntanlega spara sér, geta mætt þeim kostnaði.