144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Daglega fáum við fregnir af því að í tilteknum löndum Afríku sé stúlkum og drengjum rænt af heimilum sínum og úr skólum. Mörgum hundruðum barna er rænt og þau kúguð og notuð í hrottafenginn stríðsrekstur fylkinga vígamanna í Mið- og Miðaustur-Afríku. Vígasveitir Boko Haram í Nígeríu hafa rænt hundruðum stúlkna úr skólum, nauðgað þeim og myrt og nú síðast fáum við fregnir af því að þessar ungu stúlkur eru líka notaðar kerfisbundið til sjálfsmorðsárása fyrir hryðjuverkasamtökin. Þær eru sendar á fjölfarna staði með sprengjur innan klæða og þeim fórnað til þess að geta drepið sem flesta. Nú er svo komið að stúlkur eru tortryggðar á fjölförnum stöðum og þær hafa verið myrtar af múg af hræðslu við að þær beri með sér sprengjur. Afleiðingin er sú að samfélagið allt er farið að líta á stúlkur og konur sem ógn og þeim hefur verið meinaður aðgangur að mörkuðum og öðrum fjölförnum stöðum.

Eins var hundruðum ungra drengja rænt í Suður-Súdan fyrir tveimur vikum. Talið er að þeir hafi verið notaðir í hernað en nú berjast hátt í 12 þús. börn í borgarastyrjöldinni sem þar ríkir samkvæmt upplýsingum frá Unicef. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er það vígasveit hliðholl stjórnvöldum sem er sögð hafa rænt börnunum en stjórnvöld í Suður-Súdan segjast ekki hafa tekið þátt í ráninu og hafna öllum ásökunum hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Þessu þarf að ganga á eftir og fá úr skorið. Það er morgunljóst að yfirvöld í Nígeríu eru algjörlega máttlaus í að vernda stúlkubörn í sínu landi fyrir ofsóknum Boko Haram. Við getum ekki setið hér og lokað augunum fyrir þessum hryllingi. Okkar rödd skiptir máli á alþjóðavettvangi og það er skylda okkar að taka þessi mál upp og hafa uppi við hvert tækifæri. Ég skora á íslensk stjórnvöld að gera það.