144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

um fundarstjórn.

[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að menn óski eftir því að það sé tekið til skoðunar af forseta eða eftir atvikum skoðað í forsætisnefnd hvernig starfsháttum er hagað í nefndum þingsins en ég hygg að þeir sem tekið hafa hér til máls viti betur en þeir láta í skína. Þeir vita ósköp vel að fullmannaðar nefndir geta afgreitt mál. Varamenn sem taka sæti aðalmanns eru fullgildir nefndarmenn á þeim fundum sem þeir sitja og það er alþekkt í þingsögunni að menn sem þurft hafa að víkja af fundi af tillitssemi við flokka sína hafa kallað aðra inn fyrir sig. Hversu mörg dæmi gæti maður nú nefnt um að orðið hafi breytingar þegar þurft hefur að greiða atkvæði í nefndum til þess að taka upp nefndarálit eða fá afgreiðslu?

Aðalatriði málsins sem hér er verið að taka á dagskrá er efni þess, þ.e. sú spurning hvort gera á þá efnisbreytingu sem felst í frumvarpinu. Eigum við ekki bara að fara að ræða það í stað þess að hanga í formsatriðum um það hvernig málið komst úr nefnd?