144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra bætir nú í og hefur hér fræðslu fyrir okkur um það að varamenn komi inn úr sama stjórnmálaflokki og aðalmaðurinn sem forfallaðist. Þetta eru alveg stórmerkilegar og mikilvægar upplýsingar inn í þessa umræðu. Það er gagnlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli vera svona liðtækur í þessum (Gripið fram í.) efnum. Vandinn er sá að brennivín í búðirnar kemur blóðinu á hreyfingu í Sjálfstæðisflokknum, þar slær hjartað, þá loksins vaknar flokkurinn til lífsins. Það er komið að hugsjóninni sjálfri, koma brennivíninu út um allt og sem víðast. (Gripið fram í.) Það sem hér var til umræðu var einfaldlega það alvörumál að það liggur í valdi meiri hluta nefndar að kveða upp úr um það hvenær mál sé fullrannsakað og hvenær tækt til afgreiðslu. Ef meiri hluti fastanefndar, samanstandandi af þeim aðalmönnum sem hafa unnið að málinu, er þeirrar skoðunar að svo sé ekki hljóta allir að sjá út á hvaða spor menn eru farnir ef svo er kippt inn varamönnum sem hafa alls ekki (Forseti hringir.) tekið þátt í vinnunni til að afgreiða málið út í andstöðu við raunverulegan (Forseti hringir.) meiri hluta nefndarinnar. [Kliður í þingsal.]