144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, sem auðvitað freistar manns til að hefja aðra umræðu og spurningin er um það hversu vel hentar það Íslandi að vera með alla sína löggjöf á sviði fjármálamarkaðar sniðna að þessum evrópsku reglum sem byggja mikið á viðskiptum yfir landamæri og allt öðrum stærðum og stærðargráðum en við eigum að venjast og við að búa. Ég tek orð hæstv. fjármálaráðherra auðvitað gild þar til annað kemur í ljós, að það líti vel út með að hægt sé að finna leiðir, hjáleiðir, til að samrýma þetta stjórnarskránni, að þetta yfirþjóðlega vald og ákvarðanir sem geti komið að lögaðilum komi þá þannig til okkar í gegnum tveggja stoða kerfið að það sé ekki brot á einu eða neinu. En ég hef ekki áttað mig á hvernig Evrópusambandið teldi innleiðinguna fullnægjandi nema þær valdheimildir og það ákvarðanatökuvald væri til staðar í einhverju batteríi. Það verður þá væntanlega einhvers konar EES-stoð sem það gerir. Gott og vel.

Vissulega er margt til bóta eins og í eiginfjárreglunum og eiginfjáraukunum í Basel III. Mér dettur ekki í huga að neita því. Ég tel að þar sé t.d. sérstaklega mikilvægt að við höfum svigrúm til að skilgreina hvað við teljum kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og getum eftir atvikum sett nokkuð þunga eiginfjárauka á þau. Það er augljóst mál að stóru bankarnir þrír á Íslandi eru allir kerfislega mikilvægir fyrir íslenskt hagkerfi og íslenskt efnahagslíf. Þess vegna var ég í andsvari einmitt að spyrja hæstv. ráðherra hvort við ættum þá ekki að sæta færis vegna þess hversu sterkt þeir eru fjármagnaðir í dag og taka inn myndarlegan eiginfjárauka strax, vera ekki endilega að bíða eftir því að aftur verði viðsjárverðir tímar á fjármálamarkaði. Jú, jú, þá munu menn að vísu benda á að erfitt er fyrir bankana að ná hárri ávöxtun á mjög mikið eigið fé sem þeir liggja með, að einhverju leyti yrðu menn þá bara að (Forseti hringir.) sættast á það hvað væri ásættanlegt í þeim efnum.