144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að í frumvarpinu má lesa að skortur á öflugu eftirliti innan fjármálakerfisins og stjórnarhættir hafi leitt til mikillar áhættutöku í bönkunum, valdið bankahruninu og skapað kerfisleg vandamál í Evrópu. Í greinargerð með frumvarpinu er hins vegar ekkert minnst á mannlega þáttinn sem leiddi til þessa alls. Það var ekki bara regluverkið, það var mannlegi þátturinn, siðleysið, og ekki gleyma vondri hugmyndafræði, græðgi og ábyrgðarleysi. Ég held að við höfum fulla burði til að reka hér öfluga banka ef við viljum. Þeir mega alveg græða en gróðinn á að renna meira til samfélagsins og til neytendanna í þessu samfélagi. Þess vegna hef ég horft til banka eins og eru á Norðurlöndunum sem ég nefndi í ræðu minni sem hafa umhverfismál (Forseti hringir.) og félagslega ábyrgð að leiðarljósi. Ég held að hér sé eftirspurn (Forseti hringir.) eftir slíkum banka.