144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

náttúrupassi.

[10:52]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ferðamannaiðnaðurinn er stærsti atvinnuvegurinn á Íslandi. Hann er drifkraftur atvinnulífsins, færir okkur mestu gjaldeyristekjurnar og er aðalvaldur þess hagvaxtar sem hér hefur orðið frá 2010. Greiningardeild Íslandsbanka birti skýrslu í gær um efnið og þar kemur fram að ferðaþjónustan hefur skilað gríðarlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og sömuleiðis hefur fjölgun starfa í greininni verið stór þáttur í minnkandi atvinnuleysi á landinu. Enn fremur áætla þau að gjaldeyristekjurnar á þessu ári verði um 342 milljarðar íslenskra króna, þ.e. 1/3 af heildinni. Ferðaþjónustan er því stærsti einstaki hluturinn í öfluðum útflutningstekjum, fjórðungi stærri en sjávarútvegurinn sem fram til þessa hefur verið grundvallaratvinnuvegurinn. Í því sambandi er vert að athuga uppbyggingu innviða í þessum tveimur geirum. Ríkið hefur alla tíð staðið sig afar illa í uppbyggingu innviða í ferðamannaþjónustu. Hversu margir milljarðar af skattfé ætli hafi farið í hafnargerð og aðra uppbyggingu fyrir sjávarútveg og stóriðju?

Nú ætlar iðnaðarráðherra að gera bragarbót á með fyrirhuguðum náttúrupassa sem á að veita milljarða á ári úr vösum innlendra og erlendra ferðamanna í óvissa tilhögun, svo ekki sé meira sagt. Um þessa aðferð vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra. Ég verð að játa óvænta unun af því að vitna í og taka undir leiðara Morgunblaðsins frá föstudeginum 27. febrúar þar sem segir:

„Það á ekki jafnan að finna nýja skatta langi menn að fara í ný útgjöld.

Stórfé hefur auðvitað streymt í ríkiskassann af þeim sökum.

… öll fjölgun starfa í landinu á síðasta ári varð í ferðaþjónustu.

Það er eðlilegt að það fé sem vitlausi passinn átti að snýta út úr mönnum komi sem hluti af þeim miklu óvæntu tekjum. Það þarf ekki einu sinni að brúka nema lítinn hluta tekjuaukans. Af hverju á heilbrigð skynsemi færri fulltrúa á Alþingi nú en hún hefur nokkru sinni haft?“

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um þessi orð og (Forseti hringir.) hvað honum finnist um þessa (Forseti hringir.) tilhögun, náttúrupassann og að (Forseti hringir.) auka skatttekjur á þennan hátt.