144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að fagna þessu frumvarpi. Ég tel það mjög góðu heilli gjört að lífeyrissjóðum verði gert kleift að fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru í örum vexti.

Það vill nú svo til að í nýliðinni kjördæmaviku lagði ég mig sérstaklega fram um það að heimsækja fyrirtæki í mínu kjördæmi, Suðausturkjördæmi, sem eru svokölluð sprotafyrirtæki en eru nú komin á legg. Það kom í ljós að í mjög mörgum tilfellum höfðu þessi fyrirtæki eignast útlenda eigendur, svona um það bil þegar þau voru komin á gott ról og undir það búin að skila góðum hagnaði. Auðvitað stæði það manni náttúrlega miklu nær hjarta að lífeyrissjóðir hefðu fjármagnað þessi fyrirtæki þegar þau voru búin að slíta barnsskónum því að það kom líka í ljós í ferðalagi mínu um kjördæmið að öll eru þau að bæta mjög við sig starfsfólki.

Það kom til dæmis fram í einu af þessum fyrirtækjum, sem byggir á íslensku hugviti að þar voru 14 starfsmenn árið 2010 en eru 50 núna og fyrirtækið er enn að vaxa. Annað fyrirtæki heimsótti ég sem var einungis hugmynd árið 2001, setti á markaðinn vörur 2009 og hefur núna 40 starfsmenn á Íslandi og 100 í útlöndum og selur framleiðslu sína í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu. Þetta eru einmitt dæmi um fyrirtæki sem eru í örum vexti, sem byggja á íslensku hugviti, sem eru hvort tveggja í senn að margfalda virði sitt og stuðla að auknum atvinnutækifærum fyrir vel menntað ungt fólk og skapa hagvöxt innan lands og þar með eftirspurn og jákvæða hvata.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, herra forseti, en ég vildi bara lýsa sérstakri ánægju minni með frumvarpið. Ég vona að það fái góðan framgang og ég gleðst yfir því að flutningsmenn koma úr öllum flokkum. Það er þverpólitísk samstaða um málið og það er það stórt að það gleður mig að svo skuli vera. Það er nauðsyn á því að þverpólitísk sátt sé um mál eins og þetta. Ég lýsi eindreginni ánægju minni með málið og óska þess að það fái góðan framgang.