144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[19:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér bréf hæstv. utanríkisráðherra eða spurninguna um hvað bréfið var. Það er kannski það sem við höfum verið að ræða alveg síðan þetta bréf kom sem átti að vera einhvers konar skilaboð til Evrópusambandsins um að það væru einhverjar breytingar á viðræðum ríkisstjórnarinnar við sambandið.

Umræðan hefur kannski fyrst og fremst snúist um hversu ólýðræðislegt þetta mál er og hversu mikill heigulsháttur, það er orðið sem ég ætla að nota, er á bak við þá aðferð sem notuð var til þess að koma þessu bréfi á framfæri. Ég ætla í ræðu minni fyrst og fremst að ræða þessa þætti og formið og aðkomu þingsins að málinu í tengslum við þá stefnu sem ríkisstjórnin hafði sjálf boðað, að ég tali nú ekki um loforðið fyrir kosningar.

Í þessari umræðu allri hefur komið fram fyrirlitning á þingræðinu og ótti bæði við þing og þjóð. Einnig hefur komið fram leyndarhyggja, sem var mjög vinsælt orð hjá fyrrverandi stjórnarandstöðu. Þá hjólaði stjórnarandstaðan ítrekað í stjórnarliða og kallaði alla hluti leyndarhyggju, að verið væri að fela mál og pukrast með þau o.s.frv. En hér gengu menn fram með þeim hætti að reynt var að fela þetta bréf fyrir bæði þjóð og þingi þangað til að búið var að afhenda það og var það gert á erlendri grundu. Við sem erum á þinginu og eigum að fá að fjalla um flest þau mál sem varða stöðu Íslands og ríkisins, fáum fréttir af því í fjölmiðlum.

Ég kom til þessarar umræðu í dag, þar sem skýrsla var flutt af hæstv. utanríkisráðherra, í von um að fá skýr svör um hvað þetta bréf hefði verið og hvernig menn sæju fyrir sér framhaldið. Það skýrðist ekki nema að afar litlu leyti þó að maður vilji leyfa sér að skilja það á ákveðinn hátt og kannski er allt í lagi að gera það. Þá á ég við að þetta bréf hafi nánast enga þýðingu og að fyrri þingsályktun um aðildarumsókn sé í fullu gildi.

Það kom mér líka mjög á óvart að þegar hæstv. ráðherra kynnti málið hér fyrr í dag rakti hann innihald bréfsins að einhverju leyti en vísaði svo til skýringa sem væru í viðtali við hann í Morgunblaðinu. Við sitjum hér á Alþingi Íslendinga og viljum fá skýringar á því hvað liggi að baki og hæstv. ráðherra nennir nánast ekki að skýra út fyrir okkur hvað hann sagði heldur vísar bara í viðtöl úti í bæ. Þegar bréfið kom síðan fram hafa náttúrlega vaknað gríðarlega margar spurningar, einmitt um aðkomu þingsins, hvernig staðið var að málum, m.a. varðandi það hvenær sú ákvörðun var tekin um að senda bréf en að flytja ekki aftur þingsályktunartillögu um slit á viðræðum, hverjir tóku þá ákvörðun, hverjir sömdu bréfið. Það er allt í einu orðin fjölmiðlaumræða. Meira að segja fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins telur augljóst að bréfið sé ekki skrifað af hæstv. utanríkisráðherra. Síðan var bréfið kynnt á ríkisstjórnarfundi og samþykkt þar af ríkisstjórninni að leggja það fram. Því er svo haldið leyndu og að því er virðist hafa menn ekki einu sinni sagt frá því á þingflokksfundum stjórnarflokkanna, sem eru reglulegir fundir, þetta var á þriðjudegi en á miðvikudögum eru reglulegir þingflokksfundir. Það var svo kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna nánast á sömu stundu og bréfið var lagt fram erlendis. Utanríkismálanefnd fær ekkert að vita af bréfinu fyrr en bara í fréttum og ekki heldur þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þá veltir maður fyrir sér: Bíddu, hvað veldur því? Af hverju eru menn svona hræddir? Hvað er það sem hæstv. ráðherra óttast ef hann telur að hann hafi fundið hina einu sönnu og réttu leið? Ég tala nú ekki um að ef hæstv. forsætisráðherra hefur rétt fyrir sér að þetta hafi verið lagt fram til að halda öllum góðum þá hefur það mistekist illilega.

Það sem vakti líka athygli í tengslum við þetta bréf, og það kemur raunar fram í bréfinu sjálfu, er að undirbúningur að því hafi átt sér stað í einhverju samráði á milli Íslands og ESB. Í bréfinu stendur beinlínis, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýlega höfðu Ísland og ESB með sér samráð um stöðu mála í aðildarferlinu.“

Þá verður maður að kalla eftir því að það verði upplýst í þinginu við hverja var rætt, hvar og hvenær, hvert efnisinnihaldið var í því sem lagt var fram í þessum viðræðum og óska eftir því að að minnsta kosti utanríkismálanefnd, ef ekki þingið allt, fái minnisblöð af þessum fundum og að það verði gert í anda þess gegnsæis og góðrar stjórnsýslu sem ég vænti nú að menn vilji ástunda hér þrátt fyrir allt. Ég veit ekki betur en að hæstv. ríkisstjórn hafi einmitt verið búin að setja sér reglur um að allir fundir og símtöl ættu að vera skráð. Við heyrðum það ítrekað í sambandi við lekamálið þannig að þessi gögn hljóta að vera til og hljóta að verða dregin fram og birt.

Það sem er erfiðast í þessari umræðu er: Hvað þýðir þetta bréf? Þegar eru komnar ótal skýringar. Var þetta bara pólitísk yfirlýsing? Er þetta jafngildi slita? Eða voru þetta ekki slit á viðræðunum eins og mátti skilja á hæstv. ráðherra fyrr í dag, að þetta breytti í sjálfu sér engu um þingsályktunartillöguna, að hægt væri að taka viðræðurnar upp aftur af nýrri stjórn og þá væri bara hægt að halda áfram þar sem frá væri horfið?

Þegar maður heyrði fyrst af bréfinu sá maður að það var einlægur brotavilji á bak við það, allt þetta pukur, öll þessi aðferðafræði, öll þessi leynd og einhver klókindi sem áttu að vera fólgin í því að halda þinginu fyrir utan þetta voru tilraun til að komast hjá því að þjóðin fengi að ræða málin eða að minnsta kosti að vera búin að afgreiða málið þannig að hún færi ekki að skipta sér mikið af því.

Það er algjörlega óásættanlegt fyrir Alþingi Íslendinga og fyrir þá sem eru í stjórnarandstöðu því að eitt af því mikilvægasta í lýðræðisríki er að bera virðingu fyrir því að hér eru bæði meiri og minni hluti sem taka þarf tillit til og gefa þarf tækifæri á að taka þátt í umræðunni og hafa skoðanir. Það er grundvallarregla. Þegar menn skoða til dæmis framkvæmd kosninga og annað slíkt á vegum Evrópuráðsins líta menn til þess hver staða stjórnarandstöðunnar er. Það hefði átt að vera ljóst.

Það varð enn athyglisverðara þegar menn fóru að túlka bréfið og meta hvað væri verið að gera. Kannski er verið að gera það sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Það var svo túlkað hér fyrir ári síðan að það mundi að sjálfsögðu verða þjóðaratkvæðagreiðsla á fyrri hluta kjörtímabilsins. Því höfðu flokkarnir líka lofað fyrir kosningar. Ekkert af því stendur, ekki orð að marka það. Það verður enn þá hlægilegra þegar menn skoða hvernig málið hefur tætt í sundur þjóðina og þingið, bæði í fyrra og aftur núna, þegar maður skoðar svo það atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem stendur, aftur með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Er þetta framlagið til þess að efna þessa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? Ég held að fáum ef nokkrum ríkisstjórnum hafi tekist að tæta meira í sundur sáttina á þinginu og úti meðal þjóðarinnar en þessari hæstv. ríkisstjórn.

Það er dapurlegt að fylgjast með því að hér skuli aftur þurfa að safnast saman hópar fólks, þúsundir manna, til að berjast fyrir því að standa vörð um lýðræðið og berjast gegn gerræði núverandi ríkisstjórnar. Þar vanda menn ekki orðin, þ.e. ráðherrunum og stjórnarflokkunum, þeir láta vaða og segja fullum fetum að hér sé um að ræða svik og brot á öllu. Það eru til dæmis lesnar upp siðareglur ráðherra frá 2011 sem vinnulagið hér stangast á við.

Það er virðing Alþingis, virðing fyrir lýðræðinu og þingræðinu sem er hér undir. Efnislega getum við barist fyrir því að ná fram ákveðnum þáttum en það er þetta sem (Forseti hringir.) skiptir mestu máli. Ég á mér þá von að Alþingi muni á þessu þingi (Forseti hringir.) samþykkja tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. (Forseti hringir.) Þangað til lít ég þannig á að þingsályktunartillagan frá 2009 sé í fullu gildi og þetta bréf sé dæmt ómerkt og ógilt að öllu leyti.