144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið góðar umræður en ég verð að segja að ég held að ég sé svolítið ein á báti. Ég get ekki séð hvernig hægt er að gæta jafnræðis ef maður ætlar að ívilna sumum en ekki öllum. Það gengur ekki upp. Alþingi getur ekki staðið í því, við mundum þá ekki gera neitt annað en að taka út þetta og hitt fyrirtækið í þessum og hinum geira og segja: Það hefur enginn fengið neitt í þessum geira, nú, þá skulum við bara ívilna fullt þar. Hinn geirinn, það hafa margir fengið þar, þá verðum við að láta hann bíða. Þetta er algjört rugl, þetta gengur ekki upp. Við verðum að hætta þessu, það þýðir ekkert að hafa þessar ívilnanir. Ef það á að lækka skatta á fyrirtæki komplett, af hverju ættu sumir að fá 50% afslátt af tryggingagjaldi en ekki aðrir? Þetta gengur ekki upp. Það gerir það ekki.

Hér var aðeins rætt um nýsköpun, að þetta væri svo rosalega mikilvægt fyrir nýsköpun. Þessi rammasamningur um ívilnanir til nýfjárfestinga er ekki fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Það er einfaldlega af þeirri ástæðu að fyrirtækin þurfa að hafa ákveðna veltu sem er um 300 milljónir. Það er eðli sprota að vera ekki orðnir svona stórir þannig að þeir munu aldrei hagnast á þessum ívilnunarsamningi, þeir passa ekki inn í skapalónið. Allt tal um fjölbreyttara atvinnulíf, styðja við og búa til fleiri egg og hafa þau ekki öll í sömu körfunni passar engan veginn við rammasamning um ívilnanir. Við verðum að gera okkur það ljóst og við verðum að tala saman um að fyrirtæki geti starfað á samkeppnisgrundvelli, annars erum við að fara kolranga leið að mínu mati.