144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef sem fyrrverandi formaður BSRB nokkra reynslu af svokölluðu samráði. Þegar stjórnvöld hafa talað um að samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna um tiltekin mál hafa menn lagt afar mismunandi skilning í það hugtak. Samráð í þessu máli, eins og ég skil það, hefur fyrst og fremst verið fólgið í því að ráðherrann hefur komið á fund starfsmanna, þeirra aðila sem í hlut eiga, og sagt þeim hvað hann ætlar að gera. Það er samráðið.

Hinn þátturinn sem ég vildi víkja að í þessu örstutta andsvari mínu varðar fjarlægðina sem ég tel heppilega fyrir Þróunarsamvinnustofnun að hafa við ráðuneytið. Ég segi að mér finnist hún ekki eiga að vera ríki í ríkinu, ég sé líka þær tillögur sem eru um ráðgefandi nefnd sem á að vera yfir og með tengsl inn í þingið. (Forseti hringir.) En veruleikinn er sá að ef við færum starfsemi inn fyrir múra stofnunar ráðuneytis þar sem ráðherra situr er hið raunverulega vald fólgið í þeirri nálægð.