144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:00]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sem aðrir þakka hv. málshefjanda umræðunnar þessa þörfu umræðu um Íslandspóst og um póstþjónustu almennt. Ég tek undir mjög margt af því sem kom fram í hans máli um breytta tíma, rafvæðingu bréfa, internetþjónustu og slíka hluti. Ég held að við þurfum að ræða framtíð póstþjónustunnar mjög mikið einmitt í því sambandi.

Við getum líka rætt um Íslandspóst sérstaklega og reynt að átta okkur á við hvaða vanda hann er að fást. Það er verðugt verkefni. Ég átta mig á kostnaðinum við að dreifa pósti fimm daga vikunnar úti í sveitum og mundi sem sveitamaður segja að það væri miklu verðmætara að fá póstinn nær heimilinu þrjá daga í viku þurran, en ekki blautan og skemmdan settan í póstkassa einhvers staðar úti á vegi fimm daga vikunnar, með fullri virðingu fyrir starfsmönnum Póstsins. Ég hef mikla samúð með þeim í baráttunni við ófærð á vegum í vetur.

Það er í sjálfu sér bara ákvörðun og mér finnst alveg tímabært að við förum að ræða að taka þá ákvörðun að færa póstþjónustuna meira yfir á markaðinn. Við getum gætt hagsmuna samfélagsins, okkar þegnanna, með því að skilgreina alþjónustuna eins og við viljum að grunnþjónustan líti út, þ.e. grunnþjónusta póstþjónustunnar, hvort sem við köllum hana alþjónustu eða einhverjum öðrum nöfnum. Við höfum fullt færi á að skilgreina hana sjálf og það er raunverulega verkefnið sem við þurfum á að halda.

Við höfum verið kaþólskari en páfinn í þessu sem svo mörgu öðru þegar við tölum um vanda Íslandspósts. Regluverkið gefur miklu meira rými á að hleypa fyrirtækinu út úr óheyrilegum kostnaði við dreifingu á pósti á suma staði en er í dag. Aðalmálið í þessari umræðu er að við áttum okkur á því að í framhaldi af afnámi einkaréttarins getum við talað um á hverju við þurfum við að halda (Forseti hringir.) og hvernig við ætlum að skilgreina alþjónustu og rétt þegnanna.