144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:53]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan, í andsvari við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, verður eftirlitinu þannig háttað að sýslumaður fer með það og upplýsingar fást í gegnum skráningarkerfi þeirra og í gegnum upplýsingar frá skattinum.

Hvernig getum við tryggt að menn skrái sig? Þetta er ætlað sem hvatning til þess að þessi starfsemi komi upp á yfirborðið. Við höfum heyrt af því, og aðilar í ferðaþjónustu líka, að menn vilji vera réttum megin við lögin í þessu. Menn vilja ekki gerast glæpamenn þó að þeir afli sér aukatekna örfáar vikur á ári með því að leigja út íbúðarhúsnæði sitt. Við trúum því að þarna munum við ná að minnsta kosti góðum hluta þessarar starfsemi. (Forseti hringir.)

Varðandi tryggingar þá er það þannig að þetta er ekki atvinnustarfsemi þannig að menn hafa ekki tryggingar eins og gengur og gerist í atvinnurekstri. Ég hvet nefndina til að skoða hvort þarna gæti verið eitthvað sem við þyrftum að hnykkja á.