144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tel ég að það sé misskilningur, þrátt fyrir að viðmiðunartíminn sé mismunandi er þetta samkvæmt gildandi lögum, bara svo það sé sagt. Það er mismunandi í lögum varðandi stofna. Ég man ekki hvernig það er orðað en sjónarmið mitt er að það sé algjörlega í samræmi við lög.

Að leyfa útgerðinni sjálfri að meta gjaldið, bjóða þetta upp? Farið var ágætlega yfir það af hæstv. sjávarútvegsráðherra í ræðu í gær hver reynsla þjóða væri af því að fara uppboðsleiðina, hvernig söfnunin verður á örfárra hendur við slíkar aðstæður, hvernig þeir sterkari valta yfir þá minni, hvernig byggðasjónarmiðin verða algjörlega undir. Það er ekki eins og það hafi ekki verið skoðað ofan í kjölinn. Þetta er talin hagkvæmasta leiðin og hún er algjörlega í samræmi við gildandi lög í landinu. (Forseti hringir.) Síðan geta menn farið að breyta þeim lögum ef þeir kæra sig um. Þessu ákvæði var ekki breytt á síðasta kjörtímabili.