144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli um verndarsvæði í byggð. Málið er áhugavert af því að því er ætlað að styrkja heildarsýn þegar kemur að húsverndunar- og friðunarmálum. Ég get tekið undir það markmið í sjálfu sér að mikilvægt er að við skoðum lagaumhverfi þessara mála þannig að þá heildarsýn verði hægt að tryggja. Ég kom aðeins að þessum málum á sínum tíma þegar lög um menningarminjar voru sett árið 2012. Mér sýnist á frumvarpinu eftir að hafa farið í gegnum það að ekki sé í raun og veru verið að hrófla við þeim breytingum sem þá voru gerðar sem þóttu nú allmiklar, sérstaklega þær breytingar að hús yfir 100 ára aldri féllu almennt undir ákvæði friðunar, um leið og húsnæði næði 100 ára aldri mætti ekki hrófla við því þó að það hefði ekki verið sérstaklega friðað að mati húsafriðunarnefndar. Síðan var í þeim lagabálki öllum, þetta voru fern lög sem sett voru, húsafriðunarnefnd færð undir Minjastofnun sem kemur við sögu í þessu frumvarpi.

Þær heimildir sem eru í lögum um menningarminjar fela í sér ákveðin tól og tæki til þess að friðlýsa nánasta umhverfi húsa eða húsaþyrpingar, en markmiðið með þessu frumvarpi virðist vera að horfa með víðtækari hætti á þessi mál. Þá komum við að samspilinu við skipulagslög, sem mér heyrist að hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi mestar áhyggjur af.

Ég vil byrja á að segja að ég er sammála því markmiði að mikilvægt er að hafa nauðsynleg tól og tæki til þess að hægt sé að friða stærri heildir en einstök hús. En markmið hverfisverndar skipulagslaga hefur auðvitað verið að hægt sé að horfa á málin heildstætt og friða stærri heildir en bara einstök hús eða húsaþyrpingar. Það sem ég hef ákveðnar áhyggjur af varðar samspilið við skipulagslög en í þeim kemur hverfisvernd við sögu í skipulagsáætlunum og má segja að hún sé líka til umfjöllunar við gerð deiliskipulags. Í 12. gr. skipulagslaga segir um skipulagsáætlanir:

„Ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum,“ — til að mynda húsaþyrpingar samkvæmt menningarminjalögum — „skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd.“

Þetta er síðan áréttað í ákvæðum skipulagslaga um deiliskipulag. Þar komum við kannski að því sem mér finnst vera eitt af stóru atriðunum í frumvarpinu og ég tel að þurfi að skoðast mjög nákvæmlega, það er aðkoma almennings að þessum ákvörðunum. Í skipulagslögum, grenndarkynningum og öllu því sem þar fellur undir er reynt að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um þessi mál og geti haft áhrif á ákvarðanir.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það eins og hæstv. ráðherra segir að almenningur hefur almennt talsverðan áhuga á því að beita sér fyrir varðveislu byggðar og friðun húsa. Og af því að hér hafa Lundúnir verið nefndar er gaman að segja frá því að ég var að lesa grein um það að almenningur í Lundúnum hefur einmitt verið að andæfa því að fasteignamógúlar og stórkapítalistar eru að kaupa upp stór svæði í Soho sem þykja ekki fín lengur, þar sem til að mynda var mikill kynlífsiðnaður á fyrri árum. Þar er verið að kaupa upp og á að fara í mikla uppbyggingu sem fyrst og fremst verður á þeim forsendum að byggja mjög dýrar íbúðir fyrir þá sem hafa á því efni. Almenningur í Lundúnum andmælir þessu og vill frekar að unnið sé með gömlu borgarmyndina. Þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að almenningur hefur áhuga á því. En ferli fyrir almenning er ekki tryggt í frumvarpinu eins og ég skil það því samkvæmt því falla ákvæði skipulagslaga um hverfisvernd á brott. Þar af leiðandi vinnum við væntanlega ekki samkvæmt skilgreindu ferli eins og það er í skipulagslögum. Svo getum við deilt um hvort okkur finnist það virka nægjanlega vel og hvort aðkoma almennings hafi verið tryggð eða hvort hverfisverndin hafi skilað því sem við hefðum viljað sjá, ég tel að það sé eitthvað sem við getum rætt hér, en ég hefði viljað sjá í frumvarpinu skýrt skilgreinda aðkomu almennings að þessu ferli. Það er fyrsta atriðið sem mig langar að nefna.

Mig langar líka að ræða aðeins um samspilið við skipulagslög ef ákvæði um hverfisvernd falla brott. Þau ákvæði miðast við eins og ég nefndi áðan að ekki sé eingöngu verið að friða hús og mannvirki og hið manngerða umhverfi, heldur geti einnig verið um að ræða gróður, náttúrufar og annað slíkt. Ef við tökum sem dæmi Laugardalinn eða Elliðaárdalinn, við sem erum þingmenn Reykjavíkur til að mynda, er það verndarsvæði í þéttbýli sem við viljum að njóti hverfisverndar, ekki vegna hins manngerða, heldur vegna náttúrufars. Mig langar að velta því upp hvort þetta þurfi ekki að skoða, þ.e. hin náttúrulegu svæði sem sérstaklega er getið um í skipulagslögum og samspilið við þetta frumvarp. Ef þetta ákvæði verður í raun og veru það ákvæði sem málið snýst um, erum við þá að sleppa því að hægt sé að friða t.d. Elliðaárdalinn? Eða verður til einhver nýr lagabálkur undir umhverfisráðherra þar sem hann friðar náttúrusvæði í byggð eða verður hverfisvernd áfram á vegum sveitarfélaga hvað þetta snertir? Ég er ekki reyndur sveitarstjórnarmaður og ég mundi vilja fá skýringar á þessu þannig að ég geti áttað mig á því hvernig nákvæmlega þetta á að spila saman.

Ákvæði í 4. gr. frumvarpsins vekur auðvitað spurningar. Þar er bent á að ef sveitarstjórn sinnir ekki skyldu sinni samkvæmt 1. mgr., sem er í raun það sem hér var nefnt, þ.e. að sveitarstjórn skuli að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort innan staðarmarkra sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð, getur ráðherra falið Minjastofnun Íslands að meta gildi byggðar innar staðarmarka sveitarfélagsins og hvort ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð. Svo kemur, herra forseti, þessi setning:

„Ráðherra getur einnig falið Minjastofnun Íslands að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð.“

Þarna erum við í raun og veru komin með það ferli að sveitarstjórn geri tillögu. Gott og vel. En á sú tillaga að vera unnin samkvæmt skipulagslögum og öllu því ferli sem því fylgir? Svo erum við með annað ferli sem er að Minjastofnun meti þetta eða ráðherra í raun og veru feli Minjastofnun að meta gildi innan einstakra byggða. En svo er eiginlega kominn þriðji farvegurinn sem er að ráðherra feli Minjastofnun að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hafi varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð.

Ég velti því upp hvort eðlilegt sé að ráðherra, hver sem hann er, geri slíkt. Hann kann að hafa sérþekkingu á viðfangsefninu, en kann líka ekki að hafa sérþekkingu á því. Þá spyr maður sig: Er eðlilegt að ráðherra sem ekki hefur neina sérþekkingu á viðfangsefninu geri tillögur til Minjastofnunar um slíkar aðgerðir? Ég velti þessu ákvæði fyrir mér. Það væri mjög áhugavert þegar málið verður skoðað nánar að kanna til að mynda hvernig þessu er háttað í lögum um menningarminjar. Ef ég fletti fljótlega upp í lögum um menningarminjar frá 2012, ég ætla ekki að segja að það sé tæmandi skoðun, er það svo að ráðherra ákveður friðlýsingu eða afnám friðlýsingar að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands. Þar er í raun og veru ekki sá farvegur skilgreindur að ráðherra geti falið Minjastofnun að gera tillögu til sín um ákveðna friðlýsingu. Ég set því spurningarmerki við þennan farveg almennt í kerfinu. Ég held að fremur sé eðlilegra að tillögur komi frá fagstofnunum, í þessu tilviki Minjastofnun sem hefur innan sinna vébanda sér til ráðgjafar húsafriðunarnefnd sem á að vera skipuð sérfróðum aðilum, til ráðherra til ákvörðunar á hverjum tíma.

Þetta þrennt vil ég gera sérstaklega að umtalsefni hér, þ.e. í fyrsta lagi samspilið við skipulagslög og hvað verði um hverfisvernd svæða sem við viljum friða út frá náttúru- eða gróðurfari eða einhverju slíku ef hverfisverndarákvæðið fellur brott. Í öðru lagi geri ég athugasemd við þá málsgrein þar sem ráðherrann fær í raun og veru það vald að gera tillögu um að fá tillögu til að ákveða friðun. Og í þriðja lagi geri ég athugasemd við það að aðkoma almennings og íbúa sé ekki skýrt skilgreind í frumvarpinu. Við hljótum að gera þá kröfu þegar um er að ræða mál sem varða okkar nánasta umhverfi, skipulagsmál, að almenningur eigi þar skýra aðkomu. Það er í anda Árósasamningsins sem við höfum fullgilt að almenningur hafi þá aðkomu. Við getum að sjálfsögðu sagt að við viljum að almenningur eigi aðkomu og við skulum tryggja það, en viljum við ekki hafa hana skýrt skilgreinda í lögum þannig að leikreglurnar séu öllum ljósar og fullkomið gagnsæi ríki um ferlin þannig að almenningur eigi skýra aðkomu?

Það má spyrja sig að þessu af því að í lögum um menningarminjar er raunin ekki sú að þar sé skýrt skilgreint ferli fyrir almenning til þess að hafa áhrif á gang mála, en þá hefur áherslan náttúrlega verið á einstök hús eða húsaþyrpingar og málin álitin vera af þeirri stærðargráðu að ekki þurfi að fara fram sérstök kynning á stærra sviði. Vissulega er það hlutverk húsafriðunarnefndar þegar hún gerir tillögu, eða Minjastofnun gerir í raun og veru tillöguna, að kynna hagsmunaaðilum hana áður en hún er svo send ráðherra til afgreiðslu. Þannig að allir fá jú andmælarétt. En þar er alltaf um minni mál að ræða eins og hér hefur réttilega verið bent á. Hér erum við að ræða stærri mál, heilu svæðin sem hægt verði að friða. Þá þarf ferlið að vera algjörlega skýrt.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra. Mig langar þó að spyrja um þá nefnd sem tekur við málinu. Ég gat ekki betur heyrt, en ég er þó ekki alveg viss, en að hæstv. ráðherra legði til að málið gengi til allsherjar- og menntamálanefndar. Hann kinkar hér kolli því til staðfestingar. Þá vil ég að lokum segja að málið lýtur kannski mun fremur að samspili við skipulagslög fremur en lög um menningarminjar, og í raun og veru er sagt mjög skýrt í greinargerð frumvarpsins að ætlunin sé ekki að hrófla við lögum um menningarminjar en að það muni hafa veruleg áhrif á skipulagslögin. Ég velti því fyrir mér hvort þá sé ekki eðlilegra að hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fer með þann málaflokk fái málið til sín.

Það er svolítið merkilegt að við höfum nokkrum sinnum í vetur, herra forseti — eða frú forseti, fyrirgefðu, það á ekki að skipta um forseta í miðri ræðu, það er mjög hættulegt — deilt um það til hvaða nefnda málin eigi að ganga. Þar hefur umhverfis- og skipulagsnefnd borið heldur skarðan hlut frá borði hingað til, ég veit ekki hvort það er orðin tilhneiging. En ég hefði talið, út frá því að við erum fyrst og fremst að skoða samspil þessa frumvarps við skipulagslög, að sterk málefnaleg rök væru fyrir því að málið gengi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég vona að hæstv. ráðherra sem kemur væntanlega í ræðu á eftir, skýri kannski eitthvað af þeim spurningum sem hér hefur verið varpað upp.

En ég ítreka það að ég tel sjálft markmið frumvarpsins gott, að geta horft á heildstæðari vernd byggðar út frá heildum, en ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við vöndum okkur eins mikið og hægt er og set fram þessar athugasemdir í fyrstu atrennu þannig að þetta verði allt skoðað.