144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma og útskýra og gera betur grein fyrir því er varðar 7. lið. Það er ágætt að fjallað verði um þetta nánar annars staðar og það skýrt. Og í rauninni kannski ekkert nema gott með það að segja þó svo að það hefði kannski mátt að mínu mati fjalla meira um það en gert er hérna. Auðvitað finnur maður alltaf einhverja hluti sem maður vill hafa meira og minna af. Ég hefði, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, viljað sjá í textanum sem fylgir hér með — ja, það sem við nýir þingmenn notum til að glöggva okkur og koma okkur inn í málin, það er jú textinn sem fylgir með — meiri endurspeglun á þessum váflokkum og minna um það sem skorar lægra, sem eru hernaðarmálin. En aftur vil ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma og þó alla vega útskýra hvers vegna ekki er meira um nákvæmlega þetta atriði.