144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:17]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir hvaðan þessar hugmyndir koma, enda er ég búin að velkjast í þessari umræðu næstum því frá því að ég man eftir mér. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég tel alveg möguleika vera fyrir íslenskt nautakjöt. En þó svo að þetta séu ekki einu tveir punktarnir sem ég hef talið upp sem ég tel vera vankanta á frumvarpi þá tel ég númer eitt, tvö og þrjú vera þann slaka sem gefinn er á sóttvörnum og þann slaka sem við erum að gefa á innflutningi og verndun bústofna okkar í rauninni.

Ég tel þetta samt sem áður mikilvægt og verði að haldast í hendur, að það sé ekki nóg að mæta hérna með nýtt sæði til þess að fara að framleiða á fullu ef kerfið sjálft er síðan ekki undir það búið. Ég er með aðstöðu fyrir uppeldi á nautgripum en með auknum kröfum verð ég að taka tillit til þess, og ég þarf líka að sjá þá einhvern mögulegan ágóða af því að standa í uppeldinu. Ég tel því að ef ég á að standa með frumvarpi sem fjallar um innflutning á erfðaefni holdanautgripa þá verði ég líka að sjá einhverjar breytingar fyrir atvinnugreinina, því að hún byrjaði að kalla eftir þessu fyrir mörgum, mörgum árum, eins og gögnin sýna fram á þegar fyrst var farið í rannsóknir á þessu. Það er því spurning: Erum við komin of langt þannig að ekki sé hægt að taka með í reikninginn þá vankanta sem ég er að tala um? Hefðum við ekki þurft að taka þá með frá upphafi?