144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða undir liðnum um fundarstjórn forseta og auðvitað er það fullkomin misnotkun á honum af okkar hálfu að taka efnislega umræðu um þetta mál. Ég vil taka fram að ég geri engar athugasemdir við fundarstjórn forseta, hún er alveg til fyrirmyndar. Ég vil hvetja menn til þess, úr því að stjórnarandstæðingar koma hér í fullri alvöru og segja að það hafi verið friður um þessi mál, að fletta bara upp umræðum um virkjunarmálin á síðasta kjörtímabili. Það er alveg rétt að hér var lagt af stað í ákveðna vegferð fyrir löngu síðan af því hugsunin var sú að við mundum ekki þurfa að taka þá umræðu sem við erum búin að gera. Það mistókst fullkomlega út af aðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Hér koma menn sem studdu síðustu ríkisstjórn og segja að hér sé alltaf verið að velja ófriðinn. Eru menn búnir að gleyma því hvað gerðist fyrir nokkrum árum síðan? Má segja Icesave? Má segja ESB? Má segja virkjunarmálin?

Virðulegi forseti. Það gerir málin ekkert betri að segja hvað gerðist á síðasta kjörtímabili, en það er ekki sannfærandi að … (Gripið fram í.) Menn vilja ekki að ég fái að klára orðið núna og eru að verða eitthvað stressaðir og skil ég það vel, fyrrverandi hæstv. ráðherrar í síðustu ríkisstjórn, (Forseti hringir.) það fer þeim ekki vel að tala um sátt og samstöðu. Svo sannarlega sveif það ekki yfir vötnum á síðasta kjörtímabili.