144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[15:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú heyrum við fréttir af hagnaði bankanna, að hagnaður Landsbankans hafi aukist um 50% og hagnaður Arion banka hafi fimmfaldast þegar allir reikningar eru teknir inn í dæmið. Í fréttum kom fram að hagnaður Íslandsbanka hafi dregist saman milli ára.

Hagnaður bankanna á þremur fyrstu mánuðum ársins er 26,7 milljarðar kr. Haldist sá hagnaður út árið erum við að tala um yfir 100 milljarða sem eru 100.000 milljónir — já, 100.000 milljónir. Það eru 1.923 milljónir á viku og 274 milljónir á dag. Þessar tölur jafngilda 20% aukningu á milli ára.

Það er afar athyglisvert að sjá þessar háu hagnaðartölur bankanna. Rétt er að rifja upp að í vetur lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sem skilaði sér í auknum vaxtamun hjá viðskiptabönkunum þremur. Bankarnir lækkuðu allir vexti hjá sér en innlánsvextina mun meira en útlánsvexti. Sú ákvörðun skilar bönkunum eflaust verulegum hagnaði. Einnig hafa bankarnir hækkað þjónustugjöld og fjölgað gjaldflokkum fyrir veitta þjónustu. Ef við horfum til dæmis á hagnaðartölur hjá Arion banka kemur fram að 20% aukning er á hagnaði vegna aukinna þjónustugjalda, samanborið við sama tímabil árið 2014.

Þessi hagnaður bankanna kemur því beint frá heimilum landsins sem er ólíðandi með öllu. Það er greinilegt, miðað við þessar hagnaðartölur, að verulegt svigrúm er innan bankanna til að gera betur við viðskiptavini sína, heimili landsins. Það er tímabært að svigrúmið sem nýtt til þess meðal annars að veita lægri vexti og lægri þjónustugjöld og fella út þá gjaldskrárflokka sem bæst hafa við á undanförnum mánuðum.

Að sjá þessar háu hagnaðartölur á kostnað heimilanna gerir að verkum að ég fær verulegt óbragð í munninn. Þetta er ekki hægt og við þessu verðum við sem hér störfum að bregðast.

Ég ætla að leyfa mér að taka smá pírata á þetta í lokin og segja: Að lokum legg ég til að verðtrygging verði afnumin af neytendalánum. Það yrði til verulegra bóta fyrir heimili landsins.