144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður mjög lítið mál fyrir mig að svara þessu á tveim mínútum. Ég vil bara segja að mér finnast þær hugmyndir sem hér um ræðir ekki geta verið einkamál nokkurra manna. Mér finnast þær ekki heldur geta verið einkamál sveitarfélaga. Við erum að ræða náttúruverðmæti sem eru eign allra Íslendinga og það á að tryggja það með einhverjum hætti að allir hafi aðkomu að ákvörðunarferlinu.

Ég vil bara aðeins taka niður í 10. gr. laganna um rammaáætlun, sem fjallar um málsmeðferðina þar sem talað er um vinnu faghópa og umsagnir Umhverfisstofnunar, Fornleifaverndar, Náttúrufræðistofnunar og Ferðamálastofu. Þar er fjallað er um að leita skuli eftir samráði og faglegri aðstoð hjá viðkomandi stofnunum og stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum, hagsmunaaðilum og öðrum aðilum, með leyfi forseta:

„Þá skal verkefnisstjórn miðla upplýsingum um starf sitt með opinberum hætti. Verkefnisstjórn skal hafa samráð við Umhverfisstofnun til að tryggja samræmi verndar- og orkunýtingaráætlunar og vatnaáætlunar samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Að fengnum niðurstöðum faghópa vinnur verkefnisstjórn drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. Hún skal leita samráðs við almenning og umsagna um drögin hjá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Að liðnum umsagnarfresti og að loknu samráði tekur verkefnisstjórnin afstöðu til fyrirliggjandi virkjanaáforma“ o.s.frv., og leggur fyrir ráðherra.

Þetta er mjög umfangsmikið og skýrt ferli. Það er alveg á hreinu í lögunum hvert hið faglega mat skal vera og hvernig fara á með málin. Það á því að vera búið að tryggja það að menn og fólk hafi almennt aðkomu að þessari ákvörðunartöku. Þess vegna er það svo alvarlegt sem við horfum upp á hér þegar farið er fram hjá öllu þessu ferli, af því að þegar meiri hluti atvinnuveganefndar tekur að sér hlutverk verkefnisstjórnar gerir hún ekkert af þessu, ekki neitt. (Forseti hringir.) Það er hinn dapurlegi sannleikur í þessu máli.