144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Væri það svo að við værum eingöngu ósammála meiri hlutanum um efnisinnihald í málinu þá værum við að megninu til í ræðum um málið. Þannig er það vanalega í þessum sal. Þar skirrist minni hlutinn ekki við að vera í efnisumræðu. En hér greinir okkur á um það hvort málið geti verið á dagskrá yfir höfuð eða ekki og okkur skortir fullkomlega rök fyrir því að gengið sé gegn áliti umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að þetta sé í andstöðu við lög um rammaáætlun. Svo fáum við sendingar í gegnum fjölmiðla frá hæstv. formanni Sjálfstæðisflokksins og ég vil fá að kalla eftir því að hann komi hingað í salinn og geri okkur grein fyrir hugmyndum (Forseti hringir.) sínum svo að við séum sannfærð um að það hafi ekki einhver brotist inn á Facebook-reikninginn hans.