144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú bara þannig upp alin að þegar forsætisráðherra segir eitthvað eins og hann gerði í morgun þá tók ég hann trúanlegan, að hugsanlega væri ASÍ að kalla eftir því að þessar breytingartillögur kæmu fram til að liðka fyrir deilum á vinnumarkaði. Það var nú bara orðað þannig hér í morgun. Svo les maður umsögn ASÍ og þar beinlínis segja þeir:

„Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að Alþingi styðji þá breiðu sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur alla vinnu í tengslum við undirbúning áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og mælist því til um að tillögur verkefnisstjórnar á hverjum tíma séu virtar.“

Þetta voru öll ósköpin og þessi umsögn átti aldeilis að kalla það fram hjá forsætisráðherra að hann stæði hér og gæfi út digurbarkalegar yfirlýsingar um að þessi breyting á rammaáætlun mundi liðka til í kjaraviðræðum. Þetta er eitthvað það veruleikafirrtasta sem ég hef orðið vitni að, öll þessi umgjörð og öll sú vanþekking sem birtist í máli ráðherranna, og það í röðum, um þetta mál í þinginu. Menn segja bara eitthvað af því að þeir ætla sér að gera þetta með öllum tiltækum ráðum.