144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé því miður ekki að okkur miði mikið áfram meðan þingið situr í gíslingu málatilbúnaðar meiri hluta atvinnuveganefndar. Mér finnst hv. þm. Jón Gunnarsson fara mjúkum höndum um sjálfan sig hvað sjálfsgagnrýni varðar þegar hann varpar allri ábyrgð af þessu ástandi yfir á stjórnarandstöðuna og fríar sig og ríkisstjórnina.

Ríkisstjórnin er verkstjóralaus, það blasir við allri þjóðinni, og hún er í verulegri upplausn eins og skeytasendingar fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra bera vitni um. Forsætisráðherra boðar okkur sumarþing utan úr bæ, júní- og júlíþing. Fjármálaráðherra er með sína eigin útgáfu, það á að leggja fram frumvörp um afnám hafta rétt við þinglokin, gera svo hlé í nokkrar vikur og svo á þingið að koma aftur saman til að afgreiða málin hans. Við okkur er hins vegar ekki talað og væntanlega ekki forseta heldur.

Að lokum: Náttúra Íslands hefur ekki eiginlega rödd en hún getur öðlast rödd í gegnum okkur sem hér erum (Forseti hringir.) og erum tilbúin að tala máli hennar. (Gripið fram í.) Það ætla ég að gera, hvað sem þeim merku stjórnmálamönnum, hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni og Vigdísi Hauksdóttur, líður. (VigH: Setjið málið á dagskrá.)