144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:21]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa undrun minni á þeirri fundarstjórn að hafa tekið þetta mál á dagskrá og hleypa þinginu í það uppnám sem það er í. Það hefur lítið upp á sig þó að hv. þingmenn stjórnarinnar komi hingað og segi að við séum með þetta í gíslingu. Það er það alls ekki. Þeir eiga þetta ástand algjörlega skuldlaust sjálfir.

Ég mundi vilja nota tækifærið til að hvetja meiri hluta atvinnuveganefndar til að draga þessa breytingartillögu til baka, halda sig við upphaflegu tillöguna og leyfa verkefnisstjórn að klára sína vinnu. Það stendur til að hún skili snemma á næsta ári, í byrjun næsta árs. Er það ekki rétt, hv. þm. Jón Gunnarsson? Það er bara þannig. Ég hvet ykkur til að draga hana til baka og hleypa á friði í landinu því að hér logar allt í illdeilum. Ég held að það sé ekki gáfulegt innlegg í kjarabaráttuna að segja að lykilatriði til að leysa kjarabaráttu sé að fara að virkja. Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu, herra forseti, í landi þar sem allar atvinnugreinarnar eru á bullandi snúning.