144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[17:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Báðir hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Jón Gunnarsson hafa nú komið hingað og undirstrikað vandamálið við þetta, sennilega þó óafvitandi. Vandinn við þessa aðferð við að virkja þessa kosti er að þetta brýtur í bága við gjörvalla hugmyndafræðina á bak við rammaáætlun. Það er misjafnt hvort menn þræti fyrir þetta eða réttlæti það með einhverjum ógurlegum aðgerðum fyrri ríkisstjórnar sem sá sem hér stendur hafði ekkert með að gera, svo því sé haldið til haga. Það sem eftir stendur er að hv. þm. Jón Gunnarsson vill nú meina að þetta hafi staðið í sínu nefndaráliti sem undirstrikar bara það að menn fóru út í þetta án tillits til rammaáætlunar. Nú er svo enn með hina kostina og svo verður áfram þar til 3. áfangi rammaáætlunar hefur afgreitt þessa virkjunarkosti. Ég skil ekki hvers vegna hv. þingmönnum liggur svona á, hvers vegna þeir bíða ekki fyrst það er búið að ræða þetta í 2. áfanga. 3. áfangi neitar (Forseti hringir.) að leggja það til þrátt fyrir að hafa sömu gögn væntanlega nema það séu einhver ný gögn, það skyldi þó ekki vera, en hv. þingmenn geta bara ekki beðið og láta eins og það sé eitthvert aðalatriði að menn hripi niður á blað það (Forseti hringir.) sem menn eru búnir að röfla hérna yfir síðan í seinustu viku. Röfla, þá er ég að tala um sjálfan mig svo það sé á hreinu.