144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég lýsi áhyggjum yfir dagskrá dagsins. Hér stefnir í mestu verkföll sögunnar, heilbrigðiskerfið er búið að vera lamað í allt að sjö vikur, matvælaframleiðsla í landinu er í uppnámi, bráðlega verður ferðaþjónustan komin í mikil vandræði og ég fer fram á það að hæstv. forsætisráðherra flytji okkur hér skýrslu um stöðuna í kjaramálum.

Í máli ríkissáttasemjara komu fram áhyggjur hans af stöðunni og að þetta snúist um miklu meira en bara launin, að undir séu þættir eins og misskipting eigna og arður af auðlindum. Þetta þurfum við að ræða hér í þessum sal. Það eru því vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra hafi fylkt sér í hóp talningamanna Framsóknarflokksins en það er ágætt að fá þessar tölulegu staðreyndir fram og gera stjórnarmeirihlutanum grein fyrir því að við erum bara rétt að byrja.